145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur góða ræðu. Hún fór yfir ýmsa þætti sem snúa að afnámi einokunar á sölu á áfengi. Ég ítreka að það er það sem þetta mál snýst um, þennan eina þátt sem er sölufyrirkomulagið. Svo það fari ekkert á milli mála er ég hlynntur frumvarpinu og einn af meðflutningsmönnum þess.

Hv. þingmaður fór yfir ýmislegt mjög athyglisvert, kom inn á tvískinnung á ýmsum sviðum og það, sem vissulega er, að áfengi er engin venjuleg neysluvara. Hún kom inn á samkeppnisrök og jafnræði landsbyggðarsjónarmiða og því vil ég ítreka að í þessu frumvarpi er ekki verið að breyta því sem snýr að opinberri áfengisstefnu, bara sölufyrirkomulaginu. Í raun er ekki verið að hvika frá mikilvægi forvarna og því að hamla gegn misnotkun.

Hv. þingmaður orðaði það þannig að við værum að kalla yfir okkur kollsteypu í þessum málum. Í umræðunni er horft fram hjá öllum öðrum þáttum og mér finnst umræðan einkennast af því að aðrir þættir, eins og verð og skattar, viðurlög við ölvunarakstri, fræðsla, upplýsingagjöf og almennt vantraust á verslun, vantraust á fólki ef ég leyfi mér að taka mjög djúpt í árinni — ég vil (Forseti hringir.) að hv. þingmaður svari þessu.