145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talar mikið um að hann sé að hugsa um neytandann, gott og vel. Nú getur hin hliðin á neytendanum verið fíkillinn sem ræður ekki við sig hvað varðar áfengi og allt sem því fylgir. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það hvar hann hugsar sér að draga línuna við frelsi framboða á vöru eins og áfengi, sem í frumvarpinu er líkt við neysluvöru eins og tóbak og skotfæri. Gæti hann þá í nafni frelsis og aðgengis neytenda hugsað sér skotfæri í verslunum líka, alveg jafnt? Eða fer hann lengra? Hvað með aðrar vímuefnavörur sem hafa verið til umræðu? Ætti þá ekki að vera frelsi til þess að hafa aðgengi að kannabisefnum og öðrum efnum, ef verið er að draga línuna þannig að það eigi að vera sem mest framboð og frelsi á slíkri vöru?