145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

beiðni um sérstaka umræðu.

[13:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið mislíkar okkur þingmönnum hér í minni hlutanum mjög að hæstv. forsætisráðherra sé látinn komast upp með að hunsa beiðni þingmanns um sérstaka umræðu. Ég lagði fram beiðni um sérstaka umræðu um verðtryggingu í febrúar síðastliðnum og aftur nú þegar þing kom saman í haust. Við þessu hefur ekki verið orðið. Ég ætlast til þess að hæstv. forseti sjái til þess að þessi umræða geti farið hér fram. Það væri eðlilegt að hún færi fram þegar í þessari viku.

Þetta málefni hlýtur að vera hæstv. forsætisráðherra tamt. Þetta var annað stærsta kosningaloforðið hans. Hér átti að taka við framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn. Nú þarf hann að lýsa fyrir okkur hvað er fram undan í þessum málum, enda er þetta stórmál fyrir heimilin í landinu og fyrir efnahagslífið í heild sinni.