145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

húsnæðisfrumvörp.

[10:50]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það eru náttúrlega þegar komin inn í þingið mál sem tengjast yfirlýsingu stjórnvalda frá því í lok maí síðastliðinn. Gert er ráð fyrir ákveðnum fjárveitingum í fjárlagafrumvarpinu auk þess sem fyrir liggur tillaga um breytingar á skattlagningu leigutekna.

Við höfum síðan verið í mjög miklu og nánu samstarfi við þá aðila sem komu að yfirlýsingunni um mótun þessara frumvarpa, auk þess sem við höfum verið að fara yfir þær athugasemdir sem komu í umsagnarferli þeirra þriggja frumvarpa sem komu fram hér í vor og verið er að reyna að bregðast við á sem besta veg.

Þetta er á lokametrunum og ég vænti þess að það geti skýrst á næstunni hvenær frumvörpin koma fram hér í þinginu. Þetta eru stór mál, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, og þar af leiðandi hef ég lagt gífurlega mikla áherslu á að ná saman um þessa þætti hvað varðar þá lykilaðila sem koma að málinu, verkalýðshreyfinguna, atvinnurekendur, sveitarfélögin; það má nefna að nú er verið að funda í ráðuneytinu hvað þessi mál varðar.