145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

háhraðanettengingar.

[11:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður hreyfir hér mikilvægu máli. Það er rétt að það er skýr stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að fara í stórátak í fjarskiptainnviðum. Og ég get tekið undir það sem hv. þingmaður segir að örugg fjarskipti um landið eru eitt það mikilvægasta sem hægt er að fara í til að jafna búsetu í landinu og auka frelsi íbúa landsins til atvinnuþátttöku hvar sem er.

Ríkisstjórnin hefur núna til meðferðar þá skýrslu sem hv. þingmaður vék að og unnið er að því að koma þessu verkefni á koppinn. Í því efni er náttúrlega verið að leita leiða til að ljúka við það hvernig búa skuli um þetta mál. Það er ekki einfalt að gera en stefnumörkun liggur fyrir og viljinn er skýr.

Við höfum líka velt fyrir okkur hvort hægt sé að nýta samlegðaráhrif þegar litið er til þessarar fjarskiptauppbyggingar og þá sérstaklega þegar litið er til uppbyggingar veitufyrirtækja, þ.e. þar sem er hægt að laga þetta verkefni að því þegar veitufyrirtæki er að leggja jarðstrengi sína og slíka hluti, það mundi hafa jákvæð áhrif á niðurstöðu þessa verkefnis þegar litið er til fjárframlags ríkissjóðs. Þeir útfærsluþættir eru núna í vinnslu. Það er ekki hægt á þessu stigi að leggja mat á það hvernig niðurstaðan úr því verður nákvæmlega, þótt skýrsluhöfundar hafi haft ákveðnar sviðsmyndir uppi um það hvernig hægt er að leysa úr þessu þá eru ýmis önnur atriði sem þarf að taka til athugunar í því sambandi. Það stendur yfir núna og við höfum unnið það í utanríkisráðuneytinu í nánu samstarfi við þá sem koma að skýrslugerðinni til að geta haldið áfram með þetta mál. En ég ítreka að unnið er eftir þeirri stefnumörkun sem liggur fyrir og þeim vilja sem þar birtist.