145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:23]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir þessa umræðu sem er mikilvæg. Málefni fatlaðra og réttindi fatlaðra eru aldrei of mikið og of oft rædd hér á þingi. Mig langar til að benda á, í þessari umræðu sérstaklega, að það sem við erum að ræða um er þjónusta við einstaklinga sem hafa rétt á þjónustu.

Það þekkja allir orðið „biðlistar“. Það var eiginlega aðalorðið í málefnum fatlaðra áratugum saman. Þegar málaflokkurinn var fluttur frá ríki yfir til sveitarfélaga var það byggt á hugsuninni um nálægðarregluna, að þjónustan væri best komin í nærsamfélaginu. Það breytti í sjálfu sér ekki að þarna úti var hópur sem átti rétt á þjónustu en hafði ekki fengið þá þjónustu. Það er mikilvægt, í allri umræðu um þetta, að í raun hafa ekki orðið til nýir einstaklingar með nýjar þarfir heldur kannski bara aukinn þrýstingur á að opinberir aðilar veiti þjónustu í samræmi við rétt þessara einstaklinga.

Ég vil taka sérstaklega fram að verkefnið um NPA er mjög mikilvægt. Það er mikil mannréttindabót fyrir þá sem komast í þá þjónustu. Það er tilfærsla á fjármagni úr einni tegund af þjónustu yfir í aðra, það er ekki viðbótarfjármagn. Það er mikilvægt að við þrýstum á um að þróa það verkefni áfram og þróa þjónustuna áfram út frá þjónustunni en ekki bara út frá peningunum.

Að lokum mælist ég sérstaklega til þess og hvet okkur til að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.