145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:01]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög gott andsvar. Ég talaði í ræðu minni um samfélagslega ábyrgð og að Vínbúðin stæði mjög framarlega í stefnumörkun er varðar samfélagslega ábyrgð eins og með stöðugu skilríkjaeftirliti, hulduheimsóknum og slíku. Það kom fram í einni ársskýrslunni að mjög góð eftirfylgni væri með ákveðnu forvarnastarfi Vínbúðarinnar. Sú keðja að skóli, heimili, æskulýðsfélög og söluaðili vinni saman er mjög mikilvæg. Það geta komið hnökrar á það ef einn aðili dettur út. Ég hef fengið ábendingar um það að fólk sem vinnur að forvörnum hafi áhyggjur af því að einn aðili sem standi sig vel í forvarnamálum detti út úr þessari keðju og það geti veikt starfið og haft áhrif til framtíðar.

Varðandi auglýsingarnar, auðvitað heyrum við og sjáum auglýsingar í dag. Það er verið að fara fram hjá kerfinu. Bara á leið minni í vinnuna í morgun heyrði ég eina auglýsingu. Ég hef verulegar áhyggjur af því að það aukist vegna þess að þarna eru stórir aðilar sem fara líklega að keppa sína á milli og vilja auka framlegð sína á einhvern hátt. Ég verð að segja alveg eins og er, ég hef áhyggjur af því og ég er mjög hrædd um að auglýsingar verði dulbúnar eins og auglýsingar á pilsner og eitthvað svoleiðis og menn feli sig á bak við það að verið sé að auglýsa léttöl. Auðvitað kallar ákveðin auglýsing, þótt hún sýni léttöl, á ákveðnar langanir því að umbúðirnar líta svipað út.