145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[15:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta er gríðarlega mikilvæg umræða. Ég fagna því að við séum enn og aftur að ræða málefni flóttamanna í þessum sal. Það sem þarf að koma úr þessum ræðustól er umræða og upplýsingar til allra sem hér búa, vegna þess að ljóst er að það ástand sem er uppi varðandi Sýrlendinga á flótta er komið til að vera, alla vega næstu missiri. Við þingmenn þurfum að beita okkur fyrir því að koma upplýsingum til samfélagsins og ég fagna því svo sannarlega að við séum komin á þann stað að vera að ræða þetta.

Síðan vil ég hvetja þá leiðtoga stjórnmálaflokka sem hér eru til að skoða kaflann þar sem fjallað er um þessi málefni í stefnuskrá flokkanna. Ég fullyrði að allir flokkar þurfi að tala um þessi mál á landsfundi sínum og vera með skýra stefnu um hvað þeir vilji gera. Ég vil ekki að það halli á neinn en við þurfum öll að leggja okkur betur fram. Við sem störfum í þverpólitísku (Forseti hringir.) útlendinganefndinni höfum aðeins verið að skoða stefnu flokkanna (Forseti hringir.) og það er enginn flokkur, að mínu mati, (Forseti hringir.) sem hefur lagt nægjanlega vigt í að hafa stefnuna skýra. Gerum betur í því.