145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[16:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hafa auðvitað komið varnaðarorð frá ýmsum fagaðilum á borð við hjúkrunarfræðinga, Siðfræðistofnun og fleiri sem hafa beðið okkur að stíga varlega til jarðar og fylgjast með þróun annars staðar á Norðurlöndum frekar en að fara endilega á undan í þessu máli. Fyrir því eru veigamikil rök, kannski fyrst og fremst þau sem hv. þingmaður nefndi um flækjurnar sem við erum hugsanlega að búa til fyrir þessi börn.

Ég sagði áðan að allar sögur snerust um samskipti foreldra og barna. Margar sögur snúast einmitt um það þegar börnin átta sig á því að einhverjir aðrir eru foreldrar þeirra en þau héldu. Við þekkjum það öll úr sögunum og líka úr raunveruleikanum að það er ekki auðveld staða. Um þetta hefur nútímasálfræði eiginlega snúist frá 19. öld. Við getum séð fyrir okkur að það kunni að verða nóg að gera í þeim geira.

Án þess að spá endilega fyrir um að þetta verði eitthvað gríðarlega algengt, ég er ekki að því, erum við samt að höndla með ramma sem getur haft mjög mikil áhrif á einstaklinga og líf þeirra. Mér hefur stundum fundist eins og fólk vilji svolítið afgreiða þessi siðferðilegu og mannlegu álitamál sem eitthvað sem hægt sé að leysa með tæknilegum hætti. Ég er ekki sannfærð um það eftir lestur þessa frumvarps. Þó að ég efist ekki um að verið sé að reyna að búa til einhvern ramma sem dugi til að svara þessum álitamálum þá held ég að við séum hreinlega ekki búin að fara yfir þá umræðu og sjá fyrir hvaða áhrif (Forseti hringir.) þetta getur í raun og veru haft á einstaklinga, ekki bara börnin heldur líka (Forseti hringir.) þær konur sem munu ganga með þau og foreldrana sem eignast börn með þessum hætti. Þetta er á engan hátt einfalt, herra forseti.