145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[16:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef þetta mál væri eins einfalt og hv. þingmaður setur það upp væri búið að setja þessa löggjöf á hinum Norðurlöndunum. Þetta mál er bara miklu flóknara en svo og miklu fleiri siðferðilegar spurningar sem eru þarna undir. Eins og kom fram í umræðunni fylgja málinu ótal vinklar sem leiða til dómsmála. Ég veit ekki hversu oft er minnst á að þetta þurfi að leysa fyrir dómstólum. Því miður mundu fylgja þessu bæði ótal illleysanleg og erfið mál og margar siðferðisspurningar og þá er ekkert sem bíður nema dómstólaleiðin. Það hlýtur að vera út af einhverju sem þau lönd sem við berum okkur saman við hafa ekki treyst sér til að fara þessa leið og hafa frekar hert lög sín til að koma í veg fyrir að svona viðgangist.

Við verðum líka að horfa út fyrir eigin nafla og líta til fátækari ríkja og kvenna þar sem Vesturlandabúar hafa í raun og veru misnotað í þessu skyni. Þessi löggjöf er algjörlega opin fyrir það að íslenskir ríkisborgarar geti leitað þangað. Það er engin trygging fyrir því að ekki sé gengið á rétt fátækra kvenna sem búa við erfiðar aðstæður og þær beittar félagslegum þrýstingi svo þær neyðast til þess að ganga með barn og gefa það frá sér, sem ég trúi ekki að nokkur hér inni geti skrifað upp á.

Við vitum líka að í dag gæti kona (Forseti hringir.) ákveðið að ganga með barn (Forseti hringir.) og gefa það frá sér og ættleiða. (Forseti hringir.) Það er veruleikinn í dag.