145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það verður fróðlegt að sjá hvernig atkvæðagreiðslan fer, hvort meiri hluti þingsins sem samanstendur af ríkisstjórnarflokkum, þar af öðrum sem lofaði afnámi á verðtryggingu, muni greiða atkvæði um tillögu um að ræða afnám á verðtryggingu. Kjörtímabilið er meira en hálfnað, fregnir segja að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hyggist ekki standa að því að afnema verðtryggingu heldur breyta einhverjum tímasetningum og því um líku. Þá verður maður að velta fyrir sér hvað hafi orðið um hinn pólitíska ómöguleika sem hér var áður talað um í sambandi við Evrópusambandið og umsóknina um aðild að því. Treystir hæstv. forsætisráðherra hæstv. fjármálaráðherra til að afnema verðtryggingu, þ.e. banna hana? Er ekki best að við ræðum það? Er ekki best að við setjum á dagskrá umræðu um það?

Ég hlakka til að sjá hvernig Framsóknarflokkurinn sér í lagi greiðir atkvæði um þetta mál, eða öllu heldur kvíði ég því.