145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

leki trúnaðarupplýsinga á LSH.

[15:26]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það vakti athygli mína fréttaflutningur af málefnum sem falla undir eitthvað sem kalla má ástarlögregluna, en Útlendingastofnun fór þess á leit við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu að rannsaka hvort fólk væri ástfangið. Það kom síðan í ljós í öllum þeim furðulega málatilbúnaði að ástæðu rannsóknarinnar má meðal annars rekja til þess að persónulegum upplýsingum um hjónakornin var lekið frá Landspítalanum. Maður hefði haldið að enginn trúnaður væri eins mikilvægur og trúnaður á milli þeirra sem sækja þjónustu hjá Landspítalanum eða öðrum stofnunum sem halda utan um heilbrigði landsmanna og þessara stofnana.

Mig langaði því að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist í lagi þegar forsvarsmenn stofnunarinnar svara spurningum fjölmiðla um þetta mál þannig að svona geti bara gerst. Er það í lagi? Ég held að viðbrögð við þessu ótrúlega óhæfuverki hefðu verið allt önnur ef um Íslendinga hefði verið að ræða, ef ung alíslensk hjón hefðu þurft að fara í gegnum ástarlögregluna og trúnaðarupplýsingum hefði verið lekið frá félagsráðgjafa á Landspítalanum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort farið verði yfir með þeirri stofnun er undir hann heyrir hvernig þessum málum verði háttað í framtíðinni og hvort það sé ekki alveg öruggt að svona gerist ekki aftur.