145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

framkvæmd laga um verndarsvæði í byggð.

[15:41]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma hingað upp og óska eftir nánari skýringum á framkvæmd laga um verndarsvæði í byggð. Ég fékk reyndar nokkuð ítarleg svör við fyrirspurn sem ég lagði fram um miðjan september en enn eru nokkrar spurningar eftir sem mig langaði að beina til hæstv. forsætisráðherra.

Það var þá aðallega varðandi það hvort honum finnst sú framkvæmd sem fór fram hér varðandi skyndifriðun hafnargarðsins við Tryggvagötu hafa verið í samræmi við það sem þó kemur fram í þessu svari, þ.e. að haft sé samráð við viðkomandi aðila og aðilar fái tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og annað, hvort honum finnist þetta hafa verið gert með viðeigandi hætti í þessari tilteknu skyndifriðun.

Nú stendur eftir ákveðin spurning, sérstaklega í ljósi þess sem gerðist eftir að ég lagði fram fyrirspurn mína, og það er hvert hlutverk hæstv. umhverfisráðherra er í málinu og hvers vegna henni var falið að staðfesta skyndifriðun og hvort sá gjörningur hafi nokkra merkingu þegar komið hefur í ljós að það var gert of seint.

Ég vildi gjarnan fá svör við þessum spurningum og ætla að kynna mér betur svörin sem ég fékk við þeim spurningum sem ég lagði fram í september. En mig langar að heyra frá hæstv. forsætisráðherra um þetta.