145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins.

251. mál
[16:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður. Ég hef aðeins reynt að fá fram svör hér í þingsal um hver beri ábyrgð á því að standa með fulltrúum okkar á Feneyjatvíæringnum. Einhvern veginn virðist enginn geta gert neitt til þess að koma því skýrt á framfæri, hvort sem það er í gegnum hæstv. menntamálaráðherra eða hæstv. utanríkisráðherra, að við erum ekki sátt við að vegið sé að tjáningarfrelsinu, því að þetta er líka á skjön við tjáningarfrelsislöggjöf á Ítalíu. Þar af leiðandi held ég að það sé ekkert hættulegt að við látum í okkur heyra þegar er á sjálfum Ólympíuleikum listarinnar lokað á tjáningarfrelsið og hreinlega lokað á sýningu frá fulltrúum okkar með fyrirslætti og kreddum.