145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni og spyrja hv. þm. Frosta Sigurjónsson út í auglýsingu sem einhver samtök um betri spítala á einhverjum betri stað hafa birt í fjölmiðlum, áskorun á Alþingi og ríkisstjórn varðandi nýjan Landspítala. Það sem vakti athygli mína var að hv. þm. Frosti Sigurjónsson skrifar undir þá áskorun til sjálfs sín. Ég spyr sérstaklega vegna þess að hv. þingmaður samþykkti fjárlög 2015 með fjárframlagi upp á 945 millj. kr. til byggingar Landspítala við Hringbraut. Hann hefur einnig samþykkt ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019 með fjárframlögum öll árin til byggingar Landspítala við Hringbraut. Og hann hefur stuðlað að framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár þar sem gert er ráð fyrir 1.800 millj. kr. til að hefja byggingu á nýjum spítala við Hringbraut og skóflustunga verður tekin þar innan skamms sem betur fer.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann um atkvæðagreiðslur hans í þinginu og þann stuðning sem hann hefur sýnt málinu eins og ég hef hér getið um, en svo kemur þessi auglýsing sem hann skrifar upp á þar sem hann hvetur í raun sig og aðra til að segja nei við því sem hann hefur sagt já við á Alþingi.

Ég hef gagnrýnt mjög þessi samtök fyrir að fara svona seint af stað með andstöðu sína við málið þar sem búið er að taka ákvörðun af fagfólki og ég styð það vegna þess að ég tel að það hafi best vit á því að ákveða þetta. En hv. þingmaður segir sem sagt já í vinnunni en skorar á sjálfan sig að segja nei. Og ég verð að segja alveg eins og er, mér finnst þetta hættulegur og ljótur leikur, allt að því lýðskrum. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann út í afstöðu hans, svo og nokkurra annarra framsóknarmanna og ekki síst hæstv. forsætisráðherra, þó að hv. þingmaður svari nú ekki fyrir hann, en hann hefur líka tjáð sig með mjög alvarlegum hætti hvað þetta varðar (Forseti hringir.) núna á síðustu stigum þegar framkvæmdir eru að hefjast. Svaraðu nú, hv. þingmaður.


Efnisorð er vísa í ræðuna