145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Ágæti forseti. Nú veit ég ekki hvort þessi athugasemd var sett fram í tilefni af röð á mælendaskrá, en ég kýs að taka því ekki svo. Ég ætla að byrja á því að taka undir ræðu hv. þm. Karls Garðarssonar hér áðan um fjölmiðla, að mestu leyti, ég er ekki sammála honum um að fjölmiðlar í einkaeign og sérstaklega þeir fjölmiðlar sem voru tilgreindir, nefni þá Kjarnann sérstaklega í því efni, hafi eitthvert pólitískt „agenda“ eða pólitíska stefnu þótt þeir séu gagnrýnir. Eigendur þess fjölmiðils, ritstjórar og blaðamenn eru þekktir fyrir skrif sín t.d. um efnahagsmál og hafa gert það afar vel og njóta virðingar þvert á flokka held ég fyrir það. Í það minnsta hefur þeim sem hér stendur stundum sviðið undan þeim skrifum, þau hafa þá ekki verið sérstaklega vinveitt mínum sjónarmiðum hvað það varðar.

Hv. þm. Karl Garðarsson ræddi um mikilvægi upplýsinga, að upplýstar ákvarðanir séu teknar og almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum. Þar vísaði hann sérstaklega til RÚV og því fagna ég. Ég kýs að líta á niðurlag orða hans sem áréttingu á mikilvægi þess að varðveita RÚV.

Í gær spurði ég hæstv. fjármálaráðherra ákveðinnar spurningar um uppgjör þrotabúanna, gömlu bankanna, og fékk engin svör. Mig langaði til að taka upplýsta ákvörðun og flytja mál mitt með gögnum og styðja með rökum sem ég fæ ekki í hendur vegna þess að ég fæ ekki svör, ég fæ bara glærur. Þess vegna hef ég ákveðið að leggja fram fyrirspurn sem lögð verður fram síðar í dag til hæstv. fjármálaráðherra með nákvæmlega þeim fyrirspurnum eða spurningum sem ég beindi til hans í gær en fékk engin svör við, auk fleiri spurninga sem við þurfum að fá svör (Forseti hringir.) við. Komi þau svör hins vegar ekki þá (Forseti hringir.) reiði ég mig á hv. þm. Karl Garðarsson (Forseti hringir.) við að hjálpa mér að afla þeirra upplýsinga þannig að við getum tekið upplýsta ákvörðun í því máli. Ég veit að ég verð ekki á berangri með hann mér við hlið í því.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna