145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður er að segja okkur að það sé lítil lagaleg óvissa um að við getum klárað málið með umtalsvert betri niðurstöðu fyrir Ísland ef við tökum stöðugleikaskattinn og að flýtileið sé tryggð, sem ætti ekki að taka mikið lengri tíma en 18 mánuði af þolinmæði okkar.

Þá spyr ég um það sem þingmaðurinn nefnir um jafn gilda leið. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að hér væri verið að fresta hluta vandans. Ég er sammála þingmanninum. Felur það ekki einmitt í sér að stöðugleikaframlag sé ekki jafn gild leið stöðugleikaskattinum vegna þess að hluti vandans verði ekki leystur með stöðugleikaskatti heldur verði honum einmitt frestað? Var ekki önnur forsenda fyrir því að leggja á stöðugleikaskattinn sú að það gilti jafnræði í losun hafta? Er það nokkurt jafnræði að erlendir kröfuhafar komist fyrstir út en hér þurfi almenningur, fyrirtæki og lífeyrissjóðir landsins að bíða í óvissu?