145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðuna hér áðan. Ég vil segja eitt í upphafi, áður en ég kem að spurningunni: Ég fagna því að mér heyrist ég heyra samhljóm hjá hv. þingmanni, að hún fagni því að okkur sé að takast hér með því að fara þessa leið. Þær tvær leiðir sem voru valdar áttu báðar að tryggja eitt, það að verja lífskjör almennings. Með því að fara þessa leið er okkur að takast að verja lífskjör almennings. Mér finnst ég skynja að það er meiri pirringur gagnvart umgjörðinni á málinu, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, en innihaldi málsins sjálfs. Það er mjög ánægjulegt að innihald málsins sé í lagi.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann: Nú kom það fram hér í andsvörum áðan að haustið 2016 mundi almenningur sleppa út úr gjaldeyrishöftum, það hefur komið fram í vinnslu nefndarinnar. Er það ekki ákveðið reiðarslag fyrir Samfylkinguna, sem stjórnmálaflokk sem alltaf talaði um að ekki væri hægt að aflétta gjaldeyrishöftum nema ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, að okkur sé nú að takast að aflétta gjaldeyrishöftunum? (Forseti hringir.) Ég man ekki [Frammíköll í þingsal.] hvað ég hef heyrt margar ræður og marga fundi og margar auglýsingar (Forseti hringir.) þar sem þessu er haldið fram. Þannig að mig langar að spyrja að því hér í fyrra andsvari. Svo er ég með aðra spurningu í seinna andsvari.