145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Tíðindin eru góð, veröldin er vond. En hvernig sem allt veltist þá er hv. þm. Guðmundur Steingrímsson samkvæmur sjálfum sér. Það er alveg rétt hjá honum að sá afrakstur sem við stöndum nú frammi fyrir er til kominn fyrir atbeina margra ríkisstjórna. Það er til dæmis fróðlegt að sjá að sú niðurstaða, sem er fyrir framan okkur, er mjög í þeim anda sem síðasta ríkisstjórn vann að, þ.e. að lokum var samningaleiðin farin sem hv. þingmaður studdi frá upphafi.

Krónueignirnar eru meira og minna rúðar af kröfuhöfum, 350–400 milljarðar. Og eins og fyrri ríkisstjórn vildi lenda báðir bankarnir í íslenskri eigu. Síðan er spurningin hvernig ríkisstjórnin hefur spilað úr þeim sterka samningagrunni sem hún stóð á og var búin til með samþykkt Alþingis 12. mars 2012, þegar gjaldeyriseignir slitabúanna voru læstar inni í íslenskri efnahagslögsögu. Ég ætla nú ekki að rifja það upp að þótt hv. þingmaður hafi verið því sammála er núverandi ríkisstjórn það ekki og Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði gegn því. Forsenda alls þessa er ekki bara það að við siglum klakklaust út úr þessu þannig að við getum losnað við kröfuhafana og klárað slitabúin, forsendan var sú að jafnræði væri með kröfuhöfum, almenningi, íslenskum fyrirtækjum, lífeyrissjóðunum, gagnvart afnámi gjaldeyrishafta.

Ég spyr hv. þingmann, því að ég tók eftir að hann orðaði það svo að líkur væru á því að síðan væri hægt að aflétta gjaldeyrishöftum gagnvart okkur hinum: Telur hann og er hann þess fullviss að þessi niðurstaða leiði til þess? Síðan get ég ekki annað en beðið hann, því að hann styður þessa niðurstöðu eins og hún er í frumvarpinu: Ég lít á þessa skattundanþágu gagnvart Tortóluliðinu sem smyglgóss og ég bið hv. þingmann að gera tilraun til að skýra fyrir mér af hverju þetta er nauðsynleg forsenda þess (Forseti hringir.) að það takist farsællega að ná þeim markmiðum sem hv. þingmaður hefur lýst hér.