145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég skil það svo að ákvæði um afdráttarskattinn sé gert sérstaklega að kröfu kröfuhafanna og sniðið að þörfum þeirra. Ég skildi hann þannig. Hann staðfesti það.

Hv. þingmaður talaði um svokallað lifandi samtal sem mér skilst að hafi átt sér stað á milli Seðlabanka, fjármálaráðuneytisins og kröfuhafa. Ég leyfi mér að fullyrða að á síðasta kjörtímabili hefðu framsóknarmenn kallað þetta samninga við hrægammasjóði. Nú er búið að uppnefna það sem lifandi samtal, sem er mjög sérstakt að verða vitni að.

Eins og ég sagði áðan þá er mikið um tortryggni. Þingmenn hafa til dæmis ekki fengið að fylgjast með þessu lifandi samtali þannig að við vitum ekki hvað er þarna (Forseti hringir.) að baki. Hvernig telur hv. þingmaður að hægt sé að eyða þeirri tortryggni (Forseti hringir.) sem margoft hefur komið fram í umræðunni í dag?