145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki látið hjá líða að svara þeim aðdróttunum sem mér þótti hv. þingmaður færa hér fram í garð allrar nefndarinnar en mögulega þó sérstaklega í minn garð sem hafði framsögu um þetta mál, þegar vísað var til, eins og hann gerði það, pólitískra undirmálsmanna sem koma með þetta mál hér inn í þingsal. Ég ætla ekki að fara í einhvern orðhengilshátt við hv. þingmann hvað þetta varðar.

Hann vísar til þess að í nefndaráliti sé vísað til samráðs við þá sem fara með mál kröfuhafa sem eru auðvitað hagsmunaaðilar í þessu máli. Það dregur enginn dul á það. Það er alvanalegt að leitað sé sjónarmiða allra þeirra sem hagsmuni hafa af öllum málum sem hér eru flutt. Það skal ég með glöðu geði árétta, að nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá slitastjórnum, sérfræðinga úr ýmsum öðrum áttum, opinbera starfsmenn, embættismenn og aðra við umfjöllun þessa máls. Það er ekkert annað en afskaplega ómerkilegur málflutningur að ætla að halda því fram að þetta frumvarp sé samið af kröfuhöfum sérstaklega, að það sé flutt í þeirra umboði. Það kannast ég ekki við.

Það kann að vera að hv. þingmaður þekki þau vinnubrögð, Vinstri hreyfingin – grænt framboð kannast kannski við það, meðal annars úr tíð sinni með yfirstjórn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu á sínum tíma, þar sem ráðuneytið hefur játað að hafa borið fram frumvarp í þessum þingsal, samið af hagsmunaaðilum úti í bæ sex mánuðum áður. Það mál varðaði mikla fjárhagslega hagsmuni höfunda þess frumvarps. Ég vísa bara til umfjöllunar Fréttablaðsins frá 29. nóvember (Forseti hringir.) 2014 hvað þetta varðar. En í þessu máli er það þannig að það er að sjálfsögðu það mikilvægt að líta ber til hagsmuna og sjónarmiða, aðallega sjónarmiða, úr ýmsum áttum. Það var gert í þessu máli og verður án efa gert í öllum málum sem þessu tengjast.