145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:43]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er ákveðinn misskilningur í andsvari hv. þingmanns, þ.e. ég var ekki að vitna í nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar, ég nefndi það reyndar ekki einu orði. Ég var að vitna í lagafrumvarpið sjálft sem var, eftir því sem ég best veit, flutt af hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni. Allur texti sem ég las upp og rökstuddi og færði rök fyrir máli mínu með er bein tilvitnun í lagafrumvarpið sjálft. Ég hafði ekki tíma til að fara í nefndarálit meiri hlutans. En ég get ekki annað en endurtekið það sem ég sagði áðan hvað það varðar að þegar texti lagafrumvarpsins er lesinn samkvæmt fulltrúum slitabúa, að sögn félaganna, telja þeir sér ekki fært, gera megi ráð fyrir o.s.frv., sæti eignir þeirra, þá er allur rökstuðningur hvað skattalega hlutann varðar í frumvarpinu, í athugasemdum við frumvarpið, sóttur í málatilbúnað kröfuhafa. Það eru hvergi færð nein önnur rök fyrir þeim hluta lagafrumvarpsins en þau sem varða kröfuhafa, þ.e. öll vopnin í kistunni eru sótt þangað.

Við það get ég staðið með því að vísa í lagafrumvarpið sjálft, því að ég hef ekki haft tíma til að ræða nefndarálitið og var ekki að vitna til þess áðan.