145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir efnismikla og áhugaverða ræðu. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í nefndarálit hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, en sá hófstillti þingmaður segir þar:

„Þá hefur ríkisstjórnin kosið að hafa lítið samráð um framkvæmd málsins í heild nema á síðustu stigum þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. Því er erfitt fyrir stjórnarandstöðuna að gera ekki athugasemdir við vinnulag ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar þar sem ofuráhersla er lögð á að ljúka því máli sem hér er til umfjöllunar með sem hröðustum hætti þó að ljóst sé að ýmis tæknileg álitamál séu enn óleyst og órædd og ónóg gögn hafi verið lögð fram. Jafnvel virðist hafa verið meiri áhersla á markaðssetningu niðurstöðunnar heldur en að upplýsa stjórnarandstöðuna og almenning í landinu með fullnægjandi hætti.“

Þetta eru ákaflega þung orð og þau eru sögð af grandvörum formanni stjórnmálaflokks í mjög stóru hagsmunamáli fyrir íslenska þjóðarbúið.

Það er ljóst að þetta mál hefur tíma fram til 31. desember, þá þurfa búin að hafa verið leyst upp, hafa lokið slitameðferð til þess að stöðugleikaskatturinn lendi ekki á þeim, þannig að það eru enn tæpir tveir mánuðir til stefnu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hverjar telur hann ástæðurnar fyrir því að við erum að flýta okkur svona mikið í þinginu fyrst við höfum nægan tíma, en augljóslega vantar mikið (Forseti hringir.) af upplýsingum?