145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[20:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir þessa prýðilegu yfirferð hjá honum áðan. Hann er sá þingmaður sem hefur kannski kafað dýpst ofan í þær tölur sem liggja bak við þær upphæðir sem samkvæmt málinu eins og það er statt núna eiga að koma í hlut Íslendinga. Nú er ég í hópi þeirra sem segja að það sé kannski ekki endilega það sem skiptir mestu máli. Mestu skiptir vitaskuld að niðurstaðan verði þannig að hún tryggi stöðugleika í íslensku efnahagskerfi til frambúðar. Það er hins vegar sjálfsagt að fara með röntgenaugu á tölurnar sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að setja fram. Ástæðan er sú að hún hefur bersýnilega verið að tosa þær upp eins og hægt er. Mér þótti merkilegt að heyra það hjá hv. þingmanni í ræðu hans áðan, sem ég hafði raunar lesið í pistlum hans líka, að reiðuféð sem reitt er af hendi er einungis 8 milljarðar í stöðugleikaframlög. Munurinn á þeirri upphæð og hins vegar þeim 360 milljörðum sem eiga að teljast peningalegar eignir er síðan ýmiss konar góss sem á eftir að koma í verð. Þar skiptir náttúrlega mestu máli andvirði bankans mikla sem er metið á nafnvirði, þ.e. 1,0 og um 190 milljarðar. Hv. þingmaður gat þess að það væru engir bankar að seljast á slíku verði og það er alveg sama hvert menn fara í Evrópu, bankarnir seljast hvergi nálægt því á virðinu 1,0. Annars staðar á Norðurlöndunum, þar sem þeir hafa verið hvað stöndugastir af evrópsku bönkunum, hafa þeir að vísu verið að hækka, eru komnir úr 0,4 upp í 0,5 og 0,6.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvað með aðrar eigur? Telur hann að þar séu líka eigur sem að baki standa sem eru miklu minna virði en upp er gefið, eins og ég tel að virði bankans sé, töluvert fyrir neðan það (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin hefur reiknað með?