145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[23:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Það hafa verið fróðlegar umræður sem hafa átt sér stað hér í allan dag. Ég skal játa að ég hef nokkurn skilning á því skilningsleysi sem margir hv. þingmenn hafa lýst hér almennt í þessu máli, ekki bara málinu sem er til umræðu heldur hefur umræðan líka farið út um víðan völl og menn hafa verið að ræða losun fjármagnshafta í heild. Ég hef skilning á því að það taki tíma að ná utan um alla þá umræðu og viðurkenni sjálf að ég skil ekki til fulls alla þætti þess máls, hef ekki forsendur til þess. En þá hef ég brotið odd af oflæti mínu og reitt mig á mér fróðari aðila í þeim efnum þar sem skilning minn brestur.

Miðað við hversu mikið menn hafa lýst hér skilningsleysi sínu á málinu þá verð ég þeim mun meira undrandi á því hversu einarða afstöðu sumir hv. þingmenn í stjórnarandstöðu hafa tekið gagnvart þeirri leið sem kölluð hefur verið leið nauðasamnings með stöðugleikaframlagi, stöðugleikaframlagsleiðinni. Það kemur mér svolítið á óvart. Hér hefur líka verið lýst mikilli tortryggni í garð málsins í heild. Þó hefur í raun ekkert breyst í þessum heimi slitabúanna, ef svo má að orði komast, frá því í sumar þegar ríkisstjórnin kynnti áætlun sína um losun fjármagnshafta og Alþingi samþykkti í kjölfarið lög um stöðugleikaskatt og breytingu á mörgum reglum um gerð nauðasamninga. Það hefur sem sagt ekkert breyst nema náttúrlega afstaða sumra hv. þingmanna sem voru í sumar jákvæðir í garð þess að bjóða upp á þessa tvo möguleika, annars vegar stöðugleikaskattsframlag og hins vegar stöðugleikaskatt.

Ég vil árétta það sem ég hef sagt hér fyrr í dag. Í hlut eiga kröfuhafar sem eiga lögvarðar kröfur hér á landi, kröfuhafar sem eiga eigur hér, þannig að það liggi alveg fyrir. Vandinn við það, umfram það þegar við, hv. þingmenn eða aðrir, eigum kröfur hér á landi, er sá að þeim lögvörðu kröfum fylgir vandi upp á 1.000 milljarða fyrir íslenskt þjóðarbú. Það er sá vandi sem menn eru að reyna að leysa hér og það er þess vegna sem gjaldeyrishöft hafa verið hér, sem menn eru, held ég, sammála um að þurfi að fara með einhverjum hætti.

Ég vil líka benda á það að í lögum um gjaldeyrismál hefur verið, frá því að almennu gjaldeyrishöftin voru sett á, heimild til þess að veita undanþágu að tilteknum skilyrðum gefnum. Ég vísa til 13. gr. o í lögum um gjaldeyrismál. Kröfuhafar, alveg eins og allir aðrir á Íslandi, eiga rétt á því að afstaða sé tekin til beiðni þeirra, sem send skal Seðlabankanum, um undanþágu. Kröfuhafar eru ekki í annarri stöðu en allir aðrir hér á landi. Hingað til hefur fjölmörgum aðilum verið veitt undanþága frá gjaldeyrishöftum með ýmsum rökum og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það er þetta sem hefur legið fyrir Seðlabankanum að leysa úr, þ.e. beiðnum þessara slitabúa um undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Þegar slitabúin nefna að þau séu tilbúin til þess að gefa eitthvað eftir af kröfum sínum eða eignum hér á landi þá hlýtur að þurfa að taka tillit til þess eða að minnsta kosti svara því. Það er það sem Seðlabankinn hefur nú gert og hefur kynnt fjármálaráðherra sem hefur síðan kynnt afstöðu sína og Seðlabankans efnahags- og viðskiptanefnd.

Hér var þeirri spurningu velt upp hvort leið stöðugleikaframlags sé betri leið en leið stöðugleikaskatts. Vel mætti spyrja á móti: Er leið stöðugleikaskatts betri en leið stöðugleikaframlags? Menn þurfa að hafa í huga, hvað varðar stöðugleikaskattinn, að ágallar eru á þeirri leið. Hv. þingmenn hafa nefnt það hér og þá einkum vísað til þess að vafi kunni að vera um gildi að lögum hvað varðar stjórnarskrá, hvort þessi stöðugleikaskattur sé heppileg leið. Menn vísa til þess og að sjálfsögðu er það þannig að Alþingi hefði ekki samþykkt lög um stöðugleikaskatt nema af því að menn eru sannfærðir um að hann standist stjórnarskrá, það er alveg ljóst.

En það eru ýmsir aðrir ágallar fyrir utan þessa mögulegu dómstólaleið sem kröfuhafar mundu fara. Það liggur fyrir að framlag slitabúanna til hins svokallaða greiðslujafnaðarvanda er mjög mismunandi. Sum búin leggja ekki eins mikið til þess vanda og önnur bú vegna þess að sum búin eiga ekki svo mikið af eignum hér á landi, heldur eru bara með eigur erlendis. Þessi bú gætu þurft að selja eigur erlendis til að geta staðið í skilum með stöðugleikaskattinn. Ég leyfi mér að fullyrða að bú sem þannig háttar til um mundu alveg örugglega láta reyna á stöðugleikaskattinn fyrir dómi vegna þess að stöðugleikaskatturinn var settur á með vísan til greiðslujafnaðarvandans. Ef það liggur fyrir að sum búin leggja ekki inn eins mikið — það eru ekki öll búin, aðstæður eru mismunandi. (Gripið fram í: Má ekki reyna?) Sum búin leggja ekki eins mikið til þessa vanda og það kynni nú að vera svolítið ankannalegt fyrir dómi að bú sem þyrfti að selja eigur og koma með fé utan frá til að standa í skilum um stöðugleikaskatt vegna þess að því er gert að borga skattinn vegna þess að það leggi eitthvað til greiðslujafnaðarvandans þegar fyrir liggur að það er ekki þannig. Þetta er eitt atriði.

Annað atriði er það að greiðsla á stöðugleikaskatti gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjármálafyrirtækin sem starfandi eru í dag vegna þess að slitabúin eru með lausafé og eigur inni í þessum fjármálafyrirtækjum sem þau þyrftu endilega að losa í einu vetfangi til þess að greiða stöðugleikaskattinn. Þannig að það eru ýmsir ágallar á þessu. Fyrir utan þann helstan, að mínu mati, með stöðugleikaskattinn, að kjósi eitthvert slitabú að fara leið stöðugleikaskatts er engin stjórn á því hvenær kröfuhafar fara að endingu út með þær eigur sem þó verða eftir. Gleymum því ekki að stöðugleikaskatturinn er 39% af eigum, það er ekki 100% eignaupptaka, ekki í einu vetfangi að minnsta kosti. Það liggur alveg fyrir að slitabú yrðu hér áfram með sínar eigur, mundu ávaxta þær, mögulega mundu þær vaxa og þar fram eftir götunum, þannig að vandinn sem stefnt er að að leysa yrði ekki endilega leystur með því. En auðvitað var reynt að miða fjárhæð skattsins við það afmarkaða vandamál sem fyrir hendi er.

Svo spyrja menn: Hvernig koma kröfuhafarnir út úr þessu? Ég segi á móti: Hvað kemur mér það við? Hvað kemur hv. þingmönnum það við hvernig kröfuhafarnir koma út úr þessu? Þetta eru kröfuhafar sem eiga eigur hér, eru að fara með þær út eða gera við þær það sem þeir vilja. Þeir borga stöðugleikaframlag eða stöðugleikaskatt eftir atvikum og þar með er sambandi íslenska ríkisins við þessa kröfuhafa lokið. Hvernig þeim reiðir af í framhaldinu er algjörlega utan við alla umfjöllun sem hér á að eiga sér stað, að minnst kosti í þessum sal.

Hér hefur verið reynt að gera það tortryggilegt að samráð hafi verið haft við kröfuhafa. Það væri auðvitað fásinna að fjalla um þetta mál án þess að fá sjónarmið þeirra sem hafa helst hagsmuni af, sem eru íslenska ríkið, Seðlabankinn og kröfuhafar. Margar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, sem hafa verið gerðar eftir hrun, hafa miðað að því að liðka fyrir slitum á hinum föllnu fjármálafyrirtækjum og allar slíkar breytingar hafa verið gerðar að framlögðum sjónarmiðum þeirra sem gerst þekkja. Þessar breytingar hafa verið gerðar. Þá er rétt að árétta að þessar breytingar margar hverjar, og meðal annars þær sem eru til umfjöllunar í þessu máli, eru breytingar á reglum um gerð nauðasamninga með hliðsjón af því að þeir nauðasamningar sem hér um ræðir, nauðasamningar kröfuhafanna, eru ekki hefðbundnir nauðasamningar í skilningi gjaldþrotaskiptalaga þar sem, eins og almennt hefur þekkst hér á Íslandi, fyrirtæki er endurreist aftur, fært aftur í rekstur með minni skuldum. Nauðasamningarnir sem hér um ræðir eru í raun nokkurs konar skuldaskil. Þeir miða að því að hið fallna fyrirtæki verði slitið. Þetta eru aðstæður sem við höfum ekki þekkt hingað til svo nokkru nemi hér á Íslandi og hvað þá í þessu yfirgripsmikla mæli sem slitabú föllnu fjármálafyrirtækjanna er raunverulega.

Hér hefur líka verið kvartað yfir því að ekki hafi verið haft samtal við þjóðina. Ég vil af því tilefni nefna að öll gögn sem efnahags- og viðskiptanefnd hafa borist hafa verið gerð opinber. Ég vek sérstaka athygli á bréfi Seðlabanka Íslands, svarbréfi til Indefence, sem birt er á vefsíðu Seðlabanka Íslands, efnahags- og viðskiptanefnd gaf að sjálfsögðu öllum þeim sem nefndinni datt í hug að hefðu sjónarmið og hagsmuna að gæta, til að mynda lífeyrissjóðum, tækifæri til að veita umsögn um málið. Þessir aðilar kusu að veita ekki umsögn um málið þrátt fyrir mikla umræðu um málið, ekki bara í nefndinni frá því í september þegar málið var lagt fram og barst síðan nefndinni fyrir mánuði, heldur hafa þessi mál verið í umræðu undanfarin ár og einkum og sér í lagi frá 8. júní síðastliðinn. Það er því ekki hægt að halda öðru fram en að fólki hafi gefist kostur á að koma sjónarmiðum á framfæri á ýmsum stigum. Þá vil ég líka nefna að efnahags- og viðskiptanefnd hefur sérstaklega lagt sig í líma við að taka á móti umsögnum löngu eftir að umsagnarfrestur er liðinn, hefur ekki gert það að skilyrði að menn sendi innan tiltekins frests.

Ég vil að endingu nefna að í tengslum við það þegar menn nefna jafnræði við losun — gera það að miklu ágreiningsatriði að ekki sé haldið til haga jafnræði íslenskra aðila, lífeyrissjóða, almennings, fyrirtækja þegar kemur að losun hafta — þá gera menn því skóna að kröfuhafarnir fari hér út löngu áður en við öll hin. Af því tilefni vil ég nefna að það liggur ekkert fyrir um það hvenær kröfuhafarnir fara út. Það liggur ekkert fyrir um það. Ég bendi á að þeir eiga eftir að fá staðfestingu héraðsdóms fyrir nauðasamningi. Ég held ég geti fullyrt að það verði ekki fyrir áramót heldur einhvern tímann eftir áramót. Það er ekkert hægt að fullyrða um það hvort höftunum verði þá ekki aflétt á sama tíma.

Tímans vegna ætla ég að láta þetta nægja. Ég vonast til þess að hv. þingmenn sofi á þessu og komi öllu hressari í þingsalinn á morgun.