145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[23:54]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Framsögumaður málsins þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af líðan minni í þingsal á morgun. Hún talar um skilningsleysi þingmanna. Vandamálið er ekki skilningsleysi þingmanna heldur ófullnægjandi undirbúningur ríkisstjórnarinnar.

Ég vil byrja á því að spyrja hv. þingmann, framsögumann málsins: Af hverju gaf hún sex daga til umsagnar um málið? Í öðru lagi vil ég spyrja hana: Telur hún rétt í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið um meðferðina á stöðugleikaframlögum að kalla kannski lífeyrissjóðina inn í nefndina og velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur? Eins og hv. þingmaður sagði þá á auðvitað að tala við alla hagsmunaaðila. Ég er hér sem fulltrúi almannahagsmuna og ætlast til þess að hv. þm. Sigríður Á. Andersen sé það líka.