145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Smábátaútgerð kvótaminni og/eða kvótalausra útgerða á undir högg að sækja. Einyrkjaútgerðum með aflaheimildum hefur mikið fækkað og eru skýringar á því sjálfsagt nokkrar. Ein skýringin er sú að menn óttast að vegna neikvæðrar umræðu um kvótakerfið sé ráðlegast að selja áður en kvótinn verður tekinn af. Stærri útgerðir sem kaupa kvótann, oftast með fiskvinnslu líka, vita að þó kvótakerfinu verði breytt muni fiskur áfram verða veiddur og unninn við Íslandsstrendur.

Strandveiðikerfið var sett á illa undirbúið á sínum tíma, en þó hafa ýmsar lagfæringar verið gerðar. Landssamband smábátaeigenda hefur komið fram með hugmyndir um breytingar sem vert er að veita athygli. Það er skoðun manna að þetta strandveiðikerfi ætti að standa áfram þó með þeim breytingum sem tryggja meira öryggi til skynsamlegrar sjósóknar og með meiri jöfnuði á milli veiðisvæða.

Veiðar á hvítlúðu voru bannaðar fyrir nokkrum árum flestum sjómönnum til mikillar furðu. Skýringin var hrun í stofninum. Lúðan veiðist samt sem áður sem meðafli í flestöll veiðarfæri. Mjög strangar reglur voru settar, til dæmis á línu þar sem skera á á tauminn ef lúða bítur á svona eins og í laxinum, veiða og sleppa.

Grásleppuveiðar eru komnar undir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar til að geta kallast sjálfbærar. Ráðgjöfin er þannig unnin að grásleppa sem veiðist sem meðafli í troll rannsóknaskipa er notuð til að meta stærð hrygningarstofnsins.

Síld gekk inn á Breiðafjörð á undanförnum árum og ætluðu trillukarlar að veiða sér síld í beitu. En krókaaflamarksbátar mega ekki veiða síld í net, bara á króka. Smábátar með aflamark mega veiða síld í net en hafa ekki kvóta til þess. Þeir smábátar sem veiddu síld í net á Breiðafirði fengu að taka það úr potti ætluðum meðafla á makrílveiðum togara.

Einyrkjasmábátaútgerð hefur verið stunduð á Íslandi síðan árið 874 og hefur því töluvert fordæmisgildi. Hana þarf að efla.


Efnisorð er vísa í ræðuna