145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

RÚV-skýrslan.

[12:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég velti því upp með hæstv. ráðherra og öðrum þeim sem með þessi mál fara að ef við ætlum að gera raunhæfar áætlanir til langs tíma í einhverju fyrirtæki, hvort sem það heitir RÚV eða eitthvað annað, hljótum við að þurfa að fá fjármagn fast í hendi, ekki bara til eins árs í senn ef rekstrarumhverfið á að vera öruggt. Ég held að stjórn og stjórnendur RÚV hafi unnið hörðum höndum út frá þeirri áætlun sem samþykkt var og forsendum sem eru alveg í takt við yfirlýsingar menntamálaráðherra, m.a. um að útvarpsgjaldið lækki ekki frekar.

Hér hefur verið rakið að viðsnúningur hefur orðið í rekstri og að hann er nú hallalaus. Útvarpsstjóri orðaði það svo ágætlega: Við höfum hagrætt í umbúðum en varið innihaldið. Útvarpsstjóri hefur líka sagt að hann gangi út frá því að menntamálaráðherra fái stuðning við það frumvarp sem hann ætlar að leggja fram. Hann hlýtur að þurfa að leggja það fram á haustdögum fyrir fjárlagagerðina, þ.e. áður en henni lýkur.

Hér hefur líka verið komið inn á lífeyrissjóðslánið og ráðherra svaraði því ekki. Þess eru fordæmi að slíkar skuldbindingar séu felldar niður og má í því sambandi nefna einkareknu hjúkrunarheimilin þannig að hann ætti að hafa stuðning innan síns flokks.

Það er alveg morgunljóst að RÚV er ætlað hlutverk sem öðrum miðlum er ekki ætlað en til þess þarf auðvitað tekjustofninn að skila sér.

Mig langar að vitna í Bandalag íslenskra listamanna sem segir að Ríkisútvarpið sé „eini fjölmiðillinn sem sinnir íslenskri listsköpun á markvissan og skipulagðan hátt í öllum sínum miðlum og eini fjölmiðillinn sem samofinn er menningarsögu þjóðarinnar í bráðum 90 ár“.

Áhersla RÚV er að þjónusta landsbyggðina, efla innlenda dagskrá, öflugt menningarefni og setja börnin framar í forgangsröðina um leið og vilji er til að skerpa á almannaþjónustuhlutverkinu.

Ég vil gera orð útvarpsstjóra að lokaorðum mínum þar sem hann segir að ríkisútvarp eigi að snúast um innihald fyrst og fremst og vera sameinandi afl í samfélagi sem er alltaf að verða (Forseti hringir.) sundurleitara og sundurleitara. Með þetta að leiðarljósi eigum við að geta horft bjartsýn til framtíðar þannig að ríkisútvarp morgundagsins verði betra en ríkisútvarp dagsins í dag.