145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sorglega illa stödd í fangelsismálum og þær hljóta að vera okkur til mikillar umhugsunar nýlegar lýsingar fangelsismálastjóra á stöðu málaflokksins. En við eigum ýmis tækifæri til úrbóta og er full ástæða til að þakka ráðherranum fyrir að opna þessa löggjöf hér í þinginu og þetta mikilvæga tækifæri fyrir nefndina til að taka málið lengra og leggja, eins og hér kom fram áðan, ríkari áherslu á betrunarþáttinn en gert hefur verið. Ekki síður að rjúfa þann vítahring sem verður til þess að hér er endurkomutíðni manna í refsivist hærri en bæði við verður unað og er í nágrannalöndunum.

Í tengslum við það vil ég spyrja ráðherrann út í ummæli hennar í framsögu sinni um að hún hafi í tengslum við rafrænt eftirlit og samfélagsþjónustu falið refsiréttarnefnd ákveðin efni til að vinna með til þess að auka þann þátt í okkar kerfi. Ég vil biðja hana um að lýsa því ögn betur hvað þar er á ferðinni. Auk þess vil ég spyrja ráðherrann um það litla mál sem hér er næst á dagskrá, sem er flutt af mér og nokkrum öðrum þingmönnum og lýtur að því að veita dómurum rétt til þess að dæma unga afbrotamenn til samfélagsþjónustu þannig að þeir geti farið í samfélagsþjónustu án þess að þurfa að fara í fangelsi fyrst. Í greinargerðinni segir að þetta hafi verið rætt við undirbúning málsins en ekki talin þörf, án þess að það sé rökstutt frekar. Ég fæ ekki betur séð en að það sé bæði mikilvægt og jákvætt að dómarar hafi val um þennan kost þegar þeir fá til meðhöndlunar mál afbrotamanna á aldrinum 15–21 árs. Þá vil ég spyrja ráðherrann hvaða rök standa að baki þessum texta í greinargerðinni.