145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

tengsl ráðherra við fyrirtækið Orku Energy.

223. mál
[18:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar og vil vekja máls á þeim spurningum sem hv. þingmaður hefur lagt fram.

Fyrst vil ég segja að mér þótti heldur miður að þingmaðurinn segði að ég hefði orðið tvísaga um launagreiðslur mínar. Þannig var, og hv. þingmaður þekkir það auðvitað, að því var haldið fram að ég hefði þegið lánafyrirgreiðslu frá þessu fyrirtæki. Það gerði að verkum að ég ákvað að ganga miklu lengra en reglur þingsins kveða á um varðandi upplýsingagjöf ráðherra, m.a. um fjárhagsleg málefni sín, og birti skattskýrslur og launaseðla þar sem augljóst var hvernig í pottinn var búið, um hvaða launagreiðslur var að ræða. Og reyndar er rétt, af því að hv. þingmaður nefndi m.a. fréttir í Ríkisútvarpinu, að Ríkisútvarpið taldi rétt vegna þeirra frétta að biðja mig afsökunar á þeim fréttum þar sem augljóslega var ástæða til. Því þykir mér heldur miður að lagt sé upp með að ég hafi orðið tvísaga hvað það mál varðaði. Ég tel að komið hafi skýrt fram hvernig í pottinn var búið. Ég tók þá ákvörðun, og ég þekki ekki fordæmi þess, að birta skattskýrslu okkar hjóna til þess að menn gætu séð nákvæmlega hvaða tekjur það voru sem ég fékk frá þessu fyrirtæki og á hvaða tíma. Ég birti fyrir árin 2012 og 2013. Það er síðan hitt að það er rétt að ég hef sagt að megnið af þessari vinnu var unnin meðan ég var utan þings, launalaust að sjálfsögðu. Síðan kláraðist vinnan, vissulega eftir að ég var kominn á þing en búið var að vinna hana þannig að þau laun sem ég fékk greidd voru ekki fyrirframgreiðsla. Það hafa komið fram skýringar um nákvæmlega hvernig staðið var að þeim launagreiðslum. Launaupphæðin var fyrir skatt 5.621.179 kr. og sést í skattskýrslum mínum.

Hvað varðaði laxveiðiferð sem hv. þingmaður vitnar hér til hefur það líka, hygg ég, komið fram hjá þeim sem seldi leyfin að það sem gerðist þarna var að þeir sem greitt höfðu fyrir leyfi urðu frá að hverfa og leyfin voru seld á lægra verði.

Úr því að þingmaðurinn vill fá nákvæmari útlistun á því skal það upplýst nákvæmlega að þannig stóð á að við hjónin áttum brúðkaupsafmæli og konan mín kom með mér í þessa ferð. Við keyptum þetta leyfi, reyndar fyrir hluta úr degi. Í sjálfu sér er ekkert meira um það að segja en úr því að þingmaðurinn kallar sérstaklega eftir því vil ég auðvitað ræða það.

Hvað varðar þá spurningu sem hv. þingmaður nefndi, reyndar ekki sérstaklega í inngangi sínum, sem snýr að því hvers vegna ráðherra hafi ekki svarað ritstjórnum fimm fjölmiðla um tengslin við fyrirtækið og forsvarsmanns þess í hálft ár þá er það reyndar ekki rétt. Ef fréttaflutningur frá síðasta vori er skoðaður koma fram ýmis svör mín. Það er reyndar rétt að ég gaf ekki kost á viðtölum um málið en fjölmörg svör af minni hálfu komu fram.

Ég skal játa það að ég hafði nálgast þetta þannig að ég væri að gefa upplýsingar í samræmi við þær reglur sem giltu í þinginu um fjárhagsleg málefni þingmanna og ráðherra. En það verður líka að segjast eins og er að staðan var orðin þannig, eins og fyrrverandi Bandaríkjaforseti Lyndon B. Johnson sagði um slíkt: „Let them deny it“, að mér voru engar aðrar leiðir færar en að ganga mun lengra í birtingu upplýsinga en gert er ráð fyrir, m.a. út af þessari umræðu um meint lán þar sem það var fullyrt og tekið upp í fjölmiðlum og nauðsynlegt fyrir mig að bregðast við því.

Hvað varðar að draga taum fyrirtækis eða greiða götu þess vil ég segja að það er ekki svo. Ég hef vissulega viljað greiða götu íslenskra vísindamanna. Þannig er að þetta umrædda fyrirtæki, sem nú heitir Arctic Green Energy, hefur á undanförnum árum keypt þekkingu frá vísindamönnum og sérfræðingum á Íslandi fyrir um 9 milljarða króna sem hafa farið í þessi verkefni, sem eru mjög mikilvæg. Þetta fyrirtæki rekur ásamt kínverska ríkisfyrirtækinu Sinopec stærstu (Forseti hringir.) hitaveitu í heimi sem hefur gríðarleg umhverfisáhrif, sparar mikla brennslu á CO2, en fyrst og fremst, séð frá okkur Íslendingum, er þetta mikilvægt umhverfisverkefni en líka gríðarlegt tækifæri fyrir vísindamenn okkar til að taka þátt í þessu. Það er auðvitað það sem hefur ráðið för hjá öllum þeim ráðherrum, forseta Íslands og öðrum sem hafa komið að þessum málum.