145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

umræður um hryðjuverkin í París.

[14:17]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Virðulegi forseti. Það er mikill léttir að heyra hversu samstiga margir eru hérna og að það sé samhugur um að við munum ekki fórna mikilvægu frelsi til þess að kaupa okkur smá öryggi. Ég tek undir með hv. þm. Róberti Marshall, það er alveg rétt sem hann sagði.

Hæstv. utanríkisráðherra talaði áðan um að hryðjuverk væru bara hluti af raunveruleikanum sem við búum við í dag. Það er hrikalegt. Mér finnst við þurfa að spyrja okkur hvers vegna við þurfum að búa við þann raunveruleika og hver sé okkar hlutur og ábyrgð í því. Hversu lengi getum við leyft okkur að halda í þá hugmyndafræði að við getum bara útrýmt þessari ógn með valdi, með stríði? Með hverri sprengju, hverri byssukúlu erum við að búa til nýja óvini. Hvar endar þetta? Hvenær endar þetta?

Það minnir mig á söguna um gamla manninn sem talaði við barnabörnin sín um hvíta og svarta úlfinn sem búa inni í okkur öllum og eru stanslaust að berjast. Svarti úlfurinn táknar hræðslu, reiði, afbrýðisemi og græðgi, en sá hvíti táknar frið, ást, von, hugrekki og samúð. Barnabörnin hans spyrja: Já, en afi, hver vinnur? Og hann sagði: Sá úlfur sem þú nærir.