145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:36]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem kom fram hjá hv. þm. Þórunni Egilsdóttur varðandi opnun á nýjum gáttum inn í landið. Ég vil taka það fram að ég hef unnið með þeim hópi sem hrinti þessu úr vör og þetta er afskaplega ánægjulegt.

En ég kom hins vegar hingað til að ræða að í gær héldum við hátíðlegan dag íslenskrar tungu og sá sem er nú rótin að því öllu saman er þjóðskáldið góða, Jónas Hallgrímsson. Nú vill þannig til að við eigum skáldasetur víða um land og ég hef áður sagt að því miður hafi minningu Jónasar ekki verið gert jafn hátt undir höfði með stuðningi frá ríkinu við fæðingarstað hans. Ég tel að það væri vel við hæfi nú þegar 210 verða liðin frá fæðingu Jónasar árið 2017 að við leggjum alla okkar krafta í að búa þannig um hnútana á komandi ári og fram að þessum tíma að við getum staðið á hlaðinu á Hrauni í Öxnadal 16. nóvember 2017 og opnað þar með pompi og prakt Jónasarstað, eða hvað orð sem við viljum nota yfir það, þar sem við búum þeim sem vilja; fræðimönnum, skólamönnum, ungu fólki, náttúruunnendum og fleirum, þann stað að menn geti komið þar, hvort sem það eru landsmenn eða erlent fólk, og notið þeirrar arfleifðar sem Jónas skildi eftir, í þeirri fallegu náttúru sem þar er.


Efnisorð er vísa í ræðuna