145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka fyrir þá umræðu sem átti sér stað fyrr í dag varðandi hryðjuverkin í París. Hugur okkar allra hefur verið við þessi voðaverk að undanförnu. Ég er mjög áhyggjufull yfir stöðunni sem komin er upp í Líbanon, en ég átti þess kost að heimsækja þar sýrlenska flóttamenn fyrr á árinu. Veturinn gengur senn í garð í Líbanon og menn búa þar við mjög ólíkan kost, allt frá því að vera í yfirgefnum húsum yfir í að búa í tjöldum. Veturinn er kaldur og senn fer að snjóa á fólkið sem þar býr.

Ástandið í Líbanon í haust var þannig að það var orðin mikil spenna í samfélaginu vegna þess fjölda flóttamanna sem í landinu er og var mjög kallað eftir því af öllum þeim sem við hittum að meiri stuðningur kæmi frá alþjóðasamfélaginu, sem síðan varð. Við Íslendingar, íslenska ríkisstjórnin, ákváðum að leggja meiri fjármuni til þeirra mála, m.a. til þess að styrkja heilsugæslustarf Rauða krossins í Líbanon.

Ég óttast að spennan og þrýstingurinn nú eftir þessar árásir séu orðin enn meiri. Við þurfum að gefa því gaum og fylgjast vel með hvernig staðan er. Þeir Sýrlendingar sem eru í Líbanon bíða allir eftir því að komast heim. Skilaboðin frá þeim öllum voru að heitasta von þeirra væri sú að það næðist að stilla til friðar og að þeir flóttamenn sem hafa tímabundið búið sér heimili í nágrannaríkjum Sýrlands gætu komist aftur heim.

Lítil frétt vakti því athygli mitt í þessu öllu, um að friðarviðræður færu senn af stað. Ég veit að auðvitað er langt í land með að þær muni skila árangri og breyta einhverju, en þetta þó er alla vega fyrsta skrefið og vekur vonandi von um að eitthvað sé að rofa til í þessum efnum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna