145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að taka til umræðu fjármál sveitarfélaga. Það hefur verið afar forvitnilegt að verða vitni að umræðu um fjáraukalög og ég hef aðeins komið inn í umræðu um fjárlög fyrir 2016. Það kemur mér svolítið á óvart hve lítið er rætt um fjármál og stöðu sveitarfélaga.

Það liggur ljóst fyrir að ríkissjóður mun skila hagnaði samkvæmt áætlun fyrir 2016 þrátt fyrir vanáætlun á tekjum vegna arðgreiðslna frá fjármálafyrirtækjum upp á tugi milljarða. Ný hagspá gefur líka tilefni til bjartsýni. En þrátt fyrir þetta eiga 70% af sveitarfélögum í mjög erfiðum rekstri þótt þau hafi lyft grettistaki undanfarin ár í endurskipulagningu á rekstri og á fjármálum sínum. Það er því alveg ljóst að endurskoða verður skiptinguna á tekjum á milli sveitarfélaga og ríkis. Sveitarfélög fá engan skerf af fjármagnstekjum, engan af arðgreiðslum og engan af virðisauka. Þeirra tekjustofnar eru einungis útsvarsgreiðslur, fasteignagjöld og þjónustugjöld og þau fá heil 2,12% af tekjum ríkissjóðs í gegnum jöfnunarsjóð.

Hlutur sveitarfélaganna í auknum tekjum vegna aukinnar ferðaþjónustu er ekki stór. Skiptingin er alls ekki réttmæt miðað við þann kostnað sem sveitarfélögin leggja í til að mæta þessari vaxandi atvinnugrein.

Ég vil því hvetja þingheim, ekki síst sem sveitarstjórnarmaður, til að hafa kjark til að fara í endurskoðun á þessari skiptingu (Forseti hringir.) og nýta það svigrúm sem klárlega er til staðar í fjárlögum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna