145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hvað eiga ég og sjötugi sjálfstæðismaðurinn á Seyðisfirði og ungi maðurinn sem kýs Framsóknarflokkinn og býr í Garðabæ sameiginlegt? Við eigum það sameiginlegt að við viljum láta forgangsraða fé í heilbrigðisþjónustu og við viljum að hún sé fyrst og fremst í opinberum rekstri.

En hvað gerir ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar? Við höfum komist að því í Samfylkingunni að hæstv. heilbrigðisráðherra vinnur að því að breyta heilsugæslunni þannig að að minnsta kosti stærri hluti hennar verði í einkarekstri.

Ég lagði fram fyrirspurn til ráðherra í fyrra. Þar svaraði hann ekki spurningum mínum um hvort til stæði að fara út í aukinn einkarekstur. Hæstv. heilbrigðisráðherra þorir ekki að koma og ræða opinskátt stefnu sína um aukinn einkarekstur. Upplýsingar um þetta hafa komið fram í fjárlaganefnd. Upplýsingar um þetta höfum við í Samfylkingunni fengið á fundum, að í leynimakki sé verið að vinna að auknum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu.

Ég mun, herra forseti, leggja fram núna fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um það hvort verið sé að breyta rekstrarformi heilsugæslunnar og hvort til standi að bjóða út þann rekstur og hvert markmiðið sé þvert á vilja almennings á Íslandi. Ég mundi líka vilja fá svör við því hér frá hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans: Er það stefna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu þvert á vilja almenning? Er það stefna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins að grafa undan trausti fólks á heilbrigðiskerfinu sem við eigum öll saman og koma því í einkarekstur væntanlega í höndum vina sinna?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna