145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

2. umræða fjárlaga.

[10:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir orð hans og skil vel að það sé ætlun hans að fara vel yfir hvaða áhrif þetta hefur á starfsáætlunina, en sérstaklega vil ég fagna því að forseti leggur áherslu á það að starfsáætlun standist. Það er mikilvægt að Alþingi gangi á undan með góðu fordæmi og áætlanir þess standist og forseta er auðvitað vandi á höndum núna þegar búið er að fresta 2. umr. fjárlaga.

Ég hélt raunar að formaður fjárlaganefndar hefði gefið um það sérstakar yfirlýsingar í ræðustól Alþingis að þingið hefði komið allt of snemma saman í haust. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvernig hafi verið haldið á málum í fjárlaganefndinni fyrst ekki er hægt að ljúka málum á tilsettum tíma. Þetta skapar auðvitað sérstök vandræði vegna þess að hér eru mörg stór mál ekki fram komin og hefði þurft að nota tímann eftir 2. umr. fjárlaga til að afgreiða sex eða sjö húsnæðisfrumvörp frá hæstv. félagsmálaráðherra sem enn eru ekki komin fram og fjölmörg önnur mál eins og við vitum. (Forseti hringir.) En ég fagna því að forseti ætli að fara vel yfir þessa stöðu og vinna úr henni þannig að við höldum starfsáætlun.