145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er nefnilega alveg hárrétt tekið til orða hjá hv. þingmanni að þetta slær mann óhug. Er það virkilega þannig að menn séu að reyna að gera þessa mikilsverðu starfsemi ógagnsærri en hún er þegar hún er í sérstakri stofnun? Ég tel að sú tillaga sé góð sem Jónína Einarsdóttir prófessor, sem er einn helsti fræðimaður landsins á sviði þróunarfræða, leggur til. Hún kemst að þeirri niðurstöðu í umsögn sinni að það sé miklu skynsamlegra að flytja öll þróunarverkefni yfir í sérstaka stofnun.

Hvernig er þessu háttað á Norðurlöndum? Það mun vera nokkuð misjafnt hvernig þetta er í hinum ýmsu löndum. Við höfum mjög góða reynslu af kerfinu hér. DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD, kemst að þeirri niðurstöðu að málum sé vel fyrir komið núna. DAC ætlaði að gera hér jafningjaúttekt á næsta ári til að sannreyna að svo væri, vegna þess að vissulega vekur það athygli að við höfum verið svolítið dugleg í þessu efni þó að við þurfum að setja meiri peninga í þennan málaflokk. Við eigum að hætta (Forseti hringir.) að skera við nögl í því efni. En það hefur vakið athygli hvað við gerum þó mikið og hvað við stöndum þó vel að verki miðað við (Forseti hringir.) höfðatölu og miðað við hvað við erum fá, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) svo það sé nú rifjað upp fyrir okkur öllum.