145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:42]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir innlegg hans. Það er vissulega gott að einhver úr stjórnarmeirihlutanum gefi sér tíma í að koma hingað og ræða við okkur og ég þakka honum sérstaklega fyrir það. Ég vildi að fleiri gæfu sér tíma í það í þessum störfum.

Það er að sjálfsögðu þannig eins og hv. þingmaður nefndi að með flestum málum eru rök með og á móti. Hv. þingmaður nefndi ef til vill möguleika á rekstrarlegri hagkvæmni en það virðist því miður ekki vera niðurstaðan þegar búið er að skoða þessi mál að mikil rekstrarleg niðurstaða verði. Við eigum ekki að fórna því gagnsæi sem er í stofnuninni núna með því að færa hana inn í ógagnsæi ráðuneytisins sem lýtur allt öðrum reglum. Af því að við erum að tala um traust þá verðum við að fókusera svolítið á að leggja það þannig upp að það verði útgangspunkturinn, þó að stofnun sem þessi sé algjörlega yfir annað hafin, eins og hún hefur verið. Reynt hefur verið sex sinnum að koma þeirri stofnun inn í ráðuneytið af embættismönnum, ráðherrar hafa fram til þessa staðið það af sér þar til núna. Hver veit, ég vona svo sannarlega að þingheimur geti á einhverjum öðrum grundvelli sest yfir þetta mál og fundið niðurstöðu sem meiri sátt er um.