145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það verði að funda með þingflokksformönnum nú þegar vegna þess að hér er allt í steik. Við erum með starfsáætlun þingsins og það eru ellefu þingdagar eftir. Á sama tíma er verið að segja okkur að það sé verið að fresta 2. umr. fjárlaga. Þá á eftir að fara í gegnum 2. umr. fjárlaga, 3. umr. fjárlaga, 2. umr. fjáraukalaga, 3. umr. fjáraukalaga, 2. umr. bandormsins sem fylgir þessum frumvörpum og 3. umr. bandormsins. Hvernig í ósköpunum ætla menn að komast yfir þetta? Hér þurfa menn að setjast niður og fara að reyna að teikna það upp með hvaða hætti þeir ætla að vinna mál.

Síðan eru verklausir ráðherrar á sama tíma úti í bæ að segja fólki á ráðstefnum að þeir ætli að skila frumvörpum inn í þingið og fá þau afgreidd fyrir jól. Þetta gerði Eygló Harðardóttir, hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, sem hefur skilað núll málum hingað inn það sem af er þessu þingi. Hún segir samt kokhraust á ráðstefnum úti í bæ að hún ætli að fá húsnæðisfrumvarp samþykkt fyrir jól.

Virðulegi forseti. Hér er allt í steik. (Forseti hringir.) Menn þurfa að taka ábyrgð og reyna að ná stjórn á þessu þingi, (Forseti hringir.) setjast niður með þingflokksformönnum nú þegar og reyna að teikna upp (Forseti hringir.) einhverja raunhæfa áætlun.