145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:17]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þingmanns. Ég get ekki annað en svarað því með jái, ég held að það sé verið að gera málið flokkspólitískt. Hins vegar sé ég ekki, og það er kannski eitthvað sem hv. þingmaður getur hjálpað mér að skilja, af hverju þetta þarf að vera flokkspólitískt. Nú er ég náttúrlega nýbyrjuð á þingi þótt ég hafi fylgst með stjórnmálum í fjöldamörg ár þrátt fyrir ungan aldur og skil ekki af hverju þetta mál þarf endilega að vera flokkspólitískt. Ég skil ekki hvaðan sá vilji kemur að færa þennan málaflokk inn í ráðuneytið. Þá er klárlega verið að gera þetta flokkspólitískt og það er verið að auka yfirsýn ráðherrans á málaflokknum, eða hvað? Mundi ráðherrann hafa meiri og betri yfirsýn yfir málaflokkinn ef þessi starfsemi væri inni í ráðuneytinu? Ég skil ekki alveg tilganginn með því að færa þetta inn í ráðuneytið. Snýst þetta um einhverjar utanlandsferðir sem fólk getur farið í? Er það sem er hvatinn að baki? Er það að geta ferðast til framandi landa? Er það að geta verið á einhverjum áhugaverðum ráðstefnum eða hitt áhugavert fólk? Ég sé ekki tilganginn í því að færa þetta inn í ráðuneytið frá því að vera svo til sjálfstæð stofnun. Ég er bara að fabúlera um það af hverju þetta er. En það er klárlega verið að gera þetta miklu meira flokkspólitískt en ella með því að færa starfsemina inn í ráðuneytið. Ég skil ekki af hverju og mér finnst það algjörlega tilgangslaust þar sem þetta mun ekki vera til neinnar hagræðingar eins og komið hefur fram og stendur í greinargerð.