145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

niðurstöður og úrbótatillögur í skýrslu um ofbeldi gegn fötluðum konum.

335. mál
[16:10]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir fyrirspurn hennar um niðurstöður og úrbótatillögur í skýrslu um ofbeldi gegn fötluðum konum. Eins og hv. þingmaður fór í gegnum þá kemur fram í skýrslunni hversu margháttað ofbeldið var, allt frá einelti í æsku til kynferðisofbeldis af hendi maka eða starfsfólks á heimilum fyrir fatlað fólk. Gerðar eru góðar tillögur um það hvernig megi fyrirbyggja ofbeldi gegn fötluðum konum og styðja betur við bakið á þeim sem hafa verið beittar ofbeldi.

Frásagnir kvennanna í skýrslunni bentu í mörgum tilfellum til þess að þær hefðu ekki fengið þá aðstoð og þann stuðning sem þær þurftu til að vinna úr ofbeldinu, þvert á móti hafi ofbeldinu verið viðhaldið með aðgerðaleysi og þöggun. Er það í samræmi við erlendar rannsóknir. Í erlendum rannsóknum kemur líka fram að þegar fatlaðar konur stíga fram, segja frá ofbeldinu, þá verða viðbrögðin gjarnan þau að samfélagið trúir þeim ekki eða að við viljum ofvernda þær. Í nýlegu plaggi eða kröfugerð sem ég tók á móti var einmitt verið að benda á þetta og leggja áherslu á að ofbeldi gegn fötluðum konum, gegn fötluðu fólki, viðgengst í aðgreiningunni.

Það er verið að vinna í framhaldi af viljayfirlýsingu um landssamráð gegn ofbeldi og afleiðingum þess, sem var undirrituð af þremur ráðherrum, innanríkisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og mér, félags- og húsnæðismálaráðherra. Við höfum verið að huga að því, sem kannski er nýtt hér á Íslandi, að heildstæðri aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Sú staðreynd að við teljum rétt að þrír ráðherrar og jafnvel fleiri komi að málinu segir hversu víða þarf að vera á verði gegn ofbeldi hvers konar og raunar á öllum sviðum samfélagsins. En við tökum það hins vegar sérstaklega fram í yfirlýsingunni að það eru ákveðnir hópar í samfélaginu sem eru berskjaldaðri en aðrir fyrir ofbeldi og nefnum þar sérstaklega ofbeldi gegn fötluðu fólki.

Vinna að þessari aðgerðaáætlun er hafin og við höfum lagt áherslu á það í þessu að hér er um landssamráð að ræða. Það er ekki þannig að stjórnvöld ætli að koma fram með aðgerðaáætlun heldur verður hún unnin í víðtæku samráði. Við höfum lagt mikla áherslu á það, og ítrekað það boð, að hagsmunasamtök fatlaðs fólks komi beint að borðinu og vinni þetta með okkur.

Við erum jafnframt að vinna að nýrri framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks og að fylgja eftir eldri framkvæmdaáætlun. Þar er líka að nefna að þau lög sem voru samþykkt á síðasta kjörtímabili, þegar hv. þingmaður sat í ríkisstjórn, réttindavaktin, hafa skipt verulega miklu máli; þau snúa að réttindavakt velferðarráðuneytisins þar sem sitja fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og réttindagæslumenn um allt land við að aðstoða fatlað fólk við að gæta réttar síns. Réttindagæslumennirnir hafa tekið þátt í samstarfi við lögreglu sem hefur leitt til bættra vinnubragða við lögreglurannsókn þar sem grunur leikur á að fatlaðar konur hafi verið beittar ofbeldi og munu vinna að því að tryggja að það verklag verði viðtekið út um allt land.

Við höfum líka stutt sjúkrahúsin, stóru sjúkrahúsin okkar, til að ráða sérfræðinga til að veita áfallahjálp í kjölfar ofbeldis. Það er mikilvægt að hafa í huga að sá stuðningur á við alla þá sem verða fyrir ofbeldi. Við erum líka að skipa nefnd með þátttöku hagsmunasamtaka fatlaðs fólks til að fara yfir orlofsmál fatlaðs fólks. Við munum senda á næstunni skriflega fyrirspurn til sveitarfélaganna um hver aðkoma þeirra sé að sumarorlofsdvalarstöðum fatlaðs fólks.

Hvað varðar einstakar tillögur til úrbóta þá höfum við látið vinna fræðsluefni til starfsfólks sveitarfélaga og heilbrigðisþjónustu sem verður aðgengilegt á vefnum í upphafi næsta árs. Það hefur líka verið tekin ákvörðun um að veita Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum styrk til að útbúa kynningarefni til að fylgja eftir skýrslunni sem við erum að fjalla hér um með fjármagni í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Við höfum líka dreift skýrslunni til réttindagæslumanna í nokkru upplagi til kynningar og uppfræðslu.

Við höfum tekið málið upp við Barnaverndarstofu og Barnahús um að tryggja fjármagn þannig að starfsfólk geti sótt sér menntun og þjálfun til að veita fötluðum börnum, sem grunur leikur á að hafi verið beitt ofbeldi, sérhæfða þjónustu. Við höfum líka veitt Stígamótum sérstakt framlag til að ráða sérfræðing til að veita fötluðu fólki ráðgjöf og stuðning vegna kynferðisofbeldis. Við höfum fengið kynningu á fræðsluefni um kynfræðslu til fatlaðs fólks og erum (Forseti hringir.) að fara yfir það, það hefur fengið mjög jákvæða umsögn, hvernig við getum tryggt því fjármagn. Ég er með fleiri þætti varðandi vinnulag á heimilum fatlaðs fólks (Forseti hringir.) og líka varðandi NPA. Ég ætla að koma að því í seinna svari mínu.