145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

niðurstöður og úrbótatillögur í skýrslu um ofbeldi gegn fötluðum konum.

335. mál
[16:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra og þeim sem hafa tekið til máls um þetta mál vegna þess að það er svo ótrúlega mikilvægt. Við vitum að þetta ofbeldi er í gangi, við vitum að það þrífst í skjóli kerfisins ef svo má að orði komast og við þurfum að grípa til allra þeirra ráða sem við getum til að vinna á því bug.

Það sem mér finnst standa upp úr eftir að hafa lesið tillögurnar í þessari skýrslu er, eins og kom fram hjá ráðherra, að við þurfum að komast einhvern veginn út úr þessum aðgreindu úrræðum. Við erum með verkefni eins og notendastýrða persónulega aðstoð og ég vil því ítreka spurningu mína til ráðherra um hvar það verkefni stendur. Það er enn í einhverjum tilraunafasa og ekki orðið almennt aðgengi að því. Slíkt verkefni skiptir máli tel ég því það er annars konar ofbeldi sem fólk er beitt en bara kynferðislegu ofbeldi eða einelti. Það er að fólk fái ekki að lifa lífi sínu frjálst. Það er alltaf verið að koma fötluðu fólki fyrir einhvers staðar eða skammta þeim og það má gera þetta og það má gera hitt en við veitum fólki ekki verkfærin til að lifa lífi sínu frjálst og gera það sem það vill og langar til og það er eitt form ofbeldis af hálfu samfélagsins. Það er engum að kenna, þetta er bara system sem við erum búin að setja upp á löngum tíma og þurfum að endurskoða núna þegar við vitum hvaða áhrif það hefur.

Síðan er það kynferðisofbeldið. Ég held að við þurfum að taka það sérstaklega fyrir og ég hef lagt fram fyrirspurn til innanríkisráðherra um það hvort á hennar vegum sé verið að reyna að taka utan um það sérstaklega. Ég held að það þurfi að gera það vegna þess að það er líka annar þáttur í þessu og hann er sá að mjög margar fatlaðar konur hafa ekki getu (Forseti hringir.) til að tjá sig um það ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Við þurfum að halda vel utan um þær og reyna að draga ofbeldið fram og ná þeim sem því beita.