145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[14:45]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Herra forseti. Allt er breytingum háð. Það er það sem mig langar að ræða hér í dag. Þær breytingar sem ég held að verði mestar á næstu áratugum í lífi okkar eru ferðavenjur okkar. Tækni og þróun á þessu sviði fleytir fram. Sjálfakandi bílar eru sem dæmi ekki einhver óskilgreind framtíðarmúsík því að það getur vel farið svo að synir mínir taki aldrei bílpróf. Annað sem neyðir okkur til að breytast eru loftslagsbreytingar og margsannreynd áhrif ferðavenja okkar á umhverfið. Hugarfar okkar er líka að taka breytingum. Það sem einu sinni þótti heillandi, eins og að eiga stórt hús í úthverfunum með stórri lóð og helst tvo bíla þar sem hið síðarnefnda voru talin sjálfsögð mannréttindi, er að breytast mjög mikið og hratt, sérstaklega hjá yngri kynslóðum sem samkvæmt öllum búsetukönnunum óska sér færri fermetra og búsetu nærri miðpunkti þéttbýlis og borga.

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir þessari sérstöku umræðu um almenningssamgöngur vegna þess að mér fannst mikilvægt að ræða um almenningssamgöngur í tengslum við þær breytingar sem ég nefndi fyrr. Við erum kannski ekki komin á þann stað að þessar breytingar, nema kannski loftslagsbreytingarnar, neyði okkur til að umbylta daglegri rútínu okkar en það styttist í það. Þá þurfa stjórnvöld, hvort sem er hér eða annars staðar, að ganga í takt og helst vera nokkrum skrefum á undan.

Komandi frá sveitarstjórnarumhverfinu hef ég fundið fyrir miklum þrýstingi um bættar almenningssamgöngur og sá þrýstingur kemur úr ólíkum áttum. Að byggja hér upp almenningssamgöngukerfi sem er áreiðanlegt, traust og hagkvæmt er mikið verk. Þegar ég segi hér á ég við landið allt þó að ég ætli að leyfa mér að fókusera aðeins á höfuðborgarsvæðið í þessari sérstöku umræðu. Ég tel það hvernig tekst til að byggja upp almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu vera ákveðinn prófstein á það hversu gott verk við getum unnið. Á höfuðborgarsvæðinu er nefnilega mestur massi fólks sem þarf að fara á milli staða með hagkvæmum hætti. Hagkvæmnin verður aldrei mikil ef landsvæðið sem undir er þenst út í hið óendanlega. Það er lykilatriði í samkeppnisstöðu landsins að höfuðborgarsvæðið þróist í nútímalegt borgarsamfélag með alþjóðlegu yfirbragði þar sem lífskjör og tækifæri verða sambærileg við aðrar borgir. Þar skiptir þétting byggðar höfuðmáli. Með nýsamþykktu svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er einmitt lögð áhersla á þessa nauðsynlegu þéttingu. Samkvæmt því mun íbúum á þessu svæði fjölga og ef spár ganga eftir verður íbúafjöldi á svæðinu í kringum 300 þúsund árið 2040.

Með auknum vexti blasa við flóknar áskoranir, fyrirséðar og ófyrirséðar, sem íbúar svæðisins munu standa frammi fyrir. Eitt fyrirséð vandamál er að fyrirsjáanlegri fólksfjölgun verði mætt án þess að bílaumferð aukist í sama hlutfalli og án þess að óbyggt land verði brotið í sama mæli og gert hefur verið síðustu áratugi. Leið til að mæta þessu er borgarlínan. Borgarlínan er nýtt hágæðaalmenningssamgöngukerfi sem tengir kjarna sveitarfélaganna og flytur farþega með skjótum og öruggum hætti um höfuðborgarsvæðið. Borgarlínan verður annaðhvort hraðvagnakerfi eða léttlestarkerfi. Þannig myndast samgöngu- og þróunarás sem tengir sveitarfélögin. Borgarlínan verður því raunhæfur valkostur í samgöngum og mun gegna lykilhlutverki við að breyta ferðavenjum okkar. Meðfram borgarlínunni verða eftirsóknarverð uppbyggingarsvæði og svæði fyrir atvinnulíf og íbúa.

Það má segja að hér sé ég að lýsa ákveðinni draumsýn þar sem sterk borgarlína þræðir höfuðborgarsvæðið og flytur einhverja núlifandi íbúa svæðisins og framtíðaríbúa þess milli staða. En til þess að þetta takist þarf mjög margt að haldast í hendur. Fyrst og fremst þarf vilja til að eiga þessa sameiginlegu framtíðarsýn. Mér finnst svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins vera góð vísbending um að hægt sé að ná slíkri framtíðarsýn. Að því kom fjöldinn allur af sérfræðingum og fólki úr ólíkum stjórnmálaflokkum auk íbúa. Í þessu stefnuplaggi er mörkuð stefna þessara sveitarfélaga um hvert skuli haldið og það sem meira er, hvers vegna.

Annað sem þarf að ná utan um er hugarfar því að gjarnan hefur það verið nokkuð neikvætt í garð almenningssamgangna, þá sérstaklega hjá þeim sem nota ekki almenningssamgöngur. Samkvæmt Jarrett Walker, ráðgjafa og sérfræðingi í almenningssamgöngum, sem kom hingað nýlega, ganga almenningssamgöngur vel þar sem þeim er beint að ákveðnum stöðum eins og línum sem ganga þvert í gegnum borgir og höfuðborgarsvæði. Hann nefnir dæmi um línu 1 frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Spurður út í hið klassíska veðurfar á Íslandi sagði hann að (Forseti hringir.) veðrið á Íslandi væri ekki verra en á öðrum norðlægum slóðum (Forseti hringir.) þar sem fólk notar almenningssamgöngur í miklu meira mæli.

Þar sem tími minn er runninn út langar mig að óska eftir svörum frá innanríkisráðherra (Forseti hringir.) um samning ríkisins og sveitarfélaganna um almenningssamgöngur og eins hennar sýn á það hvernig almenningssamgöngur eigi að byggjast upp.