145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[15:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tel afar mikilvægt að menn hviki ekki frá þeim áformum að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, sem hrint var af stað með samningi ríkisvaldsins og sveitarfélaga á svæðinu á síðasta kjörtímabili. Allt að 1 milljarði kr. skyldi varið í að efla almenningssamgöngur í víðum skilningi þess orðs, þ.e. með því að bæta almenningsvagnanetið og þjónustuna, greiða götu hjólandi og gangandi umferðar og þar fram eftir götunum. Í staðinn mundi draga úr þörfinni fyrir uppbyggingu einstakra mjög dýrra samgöngumannvirkja, mislægra gatnamóta og slíkra hluta. Það væri að mínu mati stórslys ef menn hyrfu af þessari braut því að það er augljóslega í svo mikið að sækja, þjóðhagslega, umhverfislega, félagslega og samfélagslega, enda er þetta sú stefna sem er rekin víðast í framsæknum borgum og samfélögum og þó fyrr hefði verið hér á landi.

Ég hlýt líka að minna á í leiðinni að samhliða þessu var hrint af stað mjög merku átaki í að tengja almenningssamgöngunet á suðvesturhorninu við nálæga landshluta og landið allt, einnig í samstarfi við sveitarfélögin og þá í þeim skilningi að landshutasamtök sveitarfélaganna tækju samkvæmt samningum að sér að sinna þeirri þjónustu. Það hefur að sjálfsögðu þurft að sníða af ýmsa agnúa og ýmsir byrjunarörðugleikar hafa litið dagsins ljós, þar á meðal hefur afkoman á sumum svæðum verið óviðunandi og á því verður að taka. Það gildir hið sama þar og hér að jafnvel þó að menn hafi lent í þessum erfiðleikum og það mæði verulega á landshlutasamtökum eins og Eyþingi fyrir norðan þá er eindreginn vilji til að halda verkefninu áfram.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um leið og það er gott að 100 milljónir fást í samninginn vegna höfuðborgarsvæðisins og það verði þá hægt að efna hann: Er ekki óumflýjanlegt (Forseti hringir.) að bæta líka inn einhverjum fjármunum til að ná (Forseti hringir.) afkomunni í lag á þeim svæðum þar sem hún hefur verið döprust?