145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það sem var sagt áðan að þessu mátti forseti búast við í ljósi þess hvernig umræðan hefur farið fram um þetta mál og vegna beiðni aðila um að fá í húsið hæstv. utanríkisráðherra. Það lá fyrir að hann var erlendis. Þess vegna verð ég að taka undir að mér fannst mjög skrýtið að þetta mál væri sett á dagskrá í dag. Við erum með mál sem við getum rætt, opinber fjármál. Það er tilbúið til að ræða það. Við hefðum getað tekið það og rætt í dag og geymt þetta mál þar til ráðherra væri klárlega í húsi. Ég skil ekki alveg forgangsröðun hæstv. forseta í þeim efnum og hvers vegna hann velur að gera þetta í ljósi þess að hér liggur alveg fyrir að þingmenn halda áfram að tala um fundarstjórn forseta þangað til ráðherra kemur í hús. Það er ekkert annað í boði en að gera það.

Ég held að forseti hljóti að þurfa að hugsa sinn gang og velta því fyrir sér hvort ekki sé tímabært að gera hlé á fundi, ef ásetningur hans er að halda áfram fram eftir kvöldi að ræða Þróunarsamvinnustofnun, og kanna það hvenær ráðherra er væntanlegur í hús. Það hlýtur að vera hægt að gera hlé í hálftíma eða klukkutíma eða svo meðan við bíðum eftir ráðherra.