145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það verður náttúrlega að hafa í huga að það er þeim mun ámælisverðari asi á vinnunni í utanríkismálanefnd að það var ekkert sérstakt sem kallaði á þennan hraða, nema eitthvað sé okkur hulið. Í öndverðum nóvember var málið rifið út með þessum hætti. Kannski hefur verið þrýstingur á að drífa það á dagskrá svo það þvældist ekki fyrir öðrum málum sem seinna kæmu inn, ráðherrann hefur ef til vill verið með þrýsting eða hvað veit ég, ég vona að það hafi ekki haft mikil áhrif á störf nefndarinnar, enda á það ekki að gera það. Menn eiga að gefa sér þann tíma sem þarf til að vinna mál vel. Þarna held ég að menn hafi flýtt sér um of þó að kannski sé ekki hægt að segja að þingsköp hafi þannig verið brotin með beinum hætti. En þetta er líka spurning um samskipti, hefðir, hvað menn verða ásáttir um að séu vönduð og fullnægjandi vinnubrögð og þarna hafa menn lent í vanda með það.

Ég verð líka að segja og koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi í sínu fyrra andsvari, að mér er farið að leiðast mjög að við skulum halda áfram með þessa umræðu án viðveru ráðherrans. Mér finnst það niðurlægjandi. Ég segi með fullri virðingu fyrir forseta, bæði þeim sem nú er á stóli, þótt ég viti að hann beri þar ekki aðalábyrgð, og okkar aðalforseta: Ég tel að forseti Alþingis hefði átt að nota þetta mál núna og aðstæðurnar sem uppi hafa verið í því frá því í síðustu viku til að kenna ráðherranum og ráðherrunum mannasiði. Það gerist æ algengara að þeir sýni störfum á Alþingi takmarkaða virðingu, svo vægt sé til orða tekið. Það er að byrja að glitta í þá lögskýringu af hálfu ungra þingmanna að skyldur ráðherra gagnvart þinginu séu þær einar að reka inn nefið og mæla fyrir frumvörpum, síðan séu þeir roknir á burt og beri engar skyldur til að koma og svara fyrir mál sín, standa fyrir máli sínu, svara spurningum þingmanna, verða við óskum um að koma og eiga orðastað við þá.

Ég mun ekki, meðan mín nýtur við hér, láta þessa þróun ganga hávaðalaust fyrir sig, svo mikið er víst, því að þá er Alþingi fyrst að setja alvarlega niður ef það ætlar að leka niður gagnvart rétti sínum, (Forseti hringir.) stjórnarskrárbundnum og lögvörðum rétti sínum til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)