145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:26]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvað þarf til að menn taki ákvörðun um að leggja niður stofnun? Ætli hún þurfi ekki með einhverjum hætti að hafa brugðist hlutverki sínu? Þarf hún ekki að hafa farið fram úr fjárlagaramma sínum ítrekað? Er ekki líklegt að það þurfi að vera hægt að benda á dæmi um að viðkomandi stofnun og yfirstjórn hennar fari ekki að í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar? Þyrfti ekki að vera hægt að bregða henni um að fylgjast ekki með breytingum tímans og aðlaga sig ekki að þeim? Eitthvað svona hlyti að þurfa að liggja fyrir.

Ekkert af þessu lá fyrir varðandi Þróunarsamvinnustofnun. Þvert á móti segir í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„ÞSSÍ hefur unnið mjög gott starf á vettvangi þannig að eftir því er tekið.“

Í greinargerðinni segir líka að Þróunarsamvinnustofnun hafi margsannað sig í óháðum úttektum. Þegar fyrir liggur að stofnunin hefur ekkert gert af sér, þegar fyrir liggur að fyrirhuguð breyting á ekki að leiða til sérstaks hagræðis, þegar fyrir liggur umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um að þetta eigi ekkert að spara, þá kemst maður að þeirri niðurstöðu að einhver annarlegur tilgangur sé að baki. Eitthvað allt annað en þau rök sem yfirleitt ráða ákvörðunum af þessu tagi.

Þá rifja ég upp það sem ég hef áður sagt úr þessum stóli að á fundi utanríkismálanefndar var staðhæft af starfsmönnum stofnunarinnar að þegar hæstv. ráðherra hefði kallað þau á fund og sagt þeim frá þeirri ákvörðun sinni að leggja stofnunina niður hefðu starfsmenn spurt hvaða röksemdir væru fyrir því og hæstv. ráðherra hefði svarað: Ég þarf engar röksemdir.

Telur ekki hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að þetta sé ærið tilefni til að nefndin kalli þetta mál til sín aftur nú þegar búið er að upplýsa þetta hér, til að láta ráðherrann standa fyrir svörum í nefndinni líka gagnvart þessum ummælum sínum?