145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Maður skyldi þá ætla að menn byggju yfir einhverjum nýjum og mjög öflugum gagnröksemdum ef þeir ætla að selja mönnum það að eftir sem áður sé skynsamlegt að hverfa frá þessu skipulagi, leggja þessa stofnun niður, í ljósi þess hversu góð reynslan hefur verið af henni. Er það ekki þannig að Ríkisendurskoðun hafi talið þessa stofnun til fyrirmyndarstofnana hvað varðar fjárhagsmálefni og annað því um líkt? Hún hafi komið mjög vel út í úttektum, gæðamælingum innan Stjórnarráðsins, ánægju meðal starfsmanna o.s.frv. og að ástandið þar á bænum hafi farið batnandi? Jafnvel svo að góður árangur stofnunarinnar, á grundvelli þessa tiltölulega nýlega skipulags.

Ég benti á það í fyrri ræðu minni, að það væri ekki eins og við værum að breyta einhverjum forneskjulögum. Þetta er tiltölulega nýlegt skipulag eftir mikla undirbúningsvinnu, sem hér á að fara að kollvarpa með engum röksemdum. Ég var búinn að reka augun í þetta sama með úttekt OECD, DAC. Ég var mjög áhugasamur, eins og hv. þingmaður kannski man, um að við gengjum þangað inn því að ég hafði á öðrum vettvangi átt samskipti við OECD, þ.e. sem fulltrúi í Norðurlandaráði, um þessi mál.

Ég heimsótti OECD oftar en einu sinni á sínum tíma þegar ég var í þeirri nefnd Norðurlandaráðs sem fór með þessi mál og fannst alltaf pínlegt og leiðinlegt að Ísland væri ekki með í hópnum. Fyrir vikið vorum við ekki í úttektunum og samanburðinum sem alltaf kom með reglubundnum hætti frá OECD um þessi mál þangað til loksins að því var kippt í liðinn. Það er meira að segja svo pínlegt að í greinargerðinni sjálfri kemst málið eiginlega í mótsögn við þetta því að þar er vitnað í jákvæðar niðurstöður Þróunarsamvinnustofnunar núverandi skipulagi til handa. Það stendur því ekki steinn yfir steini í þessu þegar farið er í saumana á því.