145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:36]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að hefja mál mitt á því að harma fjarveru utanríkisráðherrans við þessa umræðu. Mér fellur það mjög þungt eins og fleirum að hann skuli ekki sitja hér til þess að hlýða á mál manna og svara fyrir þá málefnalegu og að mörgu leyti mjög alvarlegu gagnrýni sem fram er borin varðandi þetta mál. Það er víst ekkert við því að gera. Ráðherrann er ekki kominn til þings þó að flugvélin sem hann kom með til landsins eigi að hafa lent fyrir ríflega klukkutíma á Keflavíkurflugvelli. Það er auðvitað aðfinnsluefni.

Virðulegi forseti. Í umræðu um þetta mál hafa komið fram ýmsar spurningar, gagnrýni og efasemdir um tilurð málsins og tilgang. Ég minnist þess að hafa í ræðu minni við 1. umr. getið um hversu vanbúið og vanhugsað þetta frumvarp væri, ekki síst í ljósi þeirra viðmiða sem almennt eru við lýði um góða stjórnsýsluhætti og fagmennsku í stjórnsýslunni. Ég taldi þá og tel enn að með þessari ákvörðun sé verið að draga mjög úr fagmennsku þróunarsamvinnu og verði þetta frumvarp að veruleika, eins og margt bendir til, tel ég að gengið sé gegn þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í stjórnsýslunni undanfarin ár, þ.e. að stefnumótun málaflokka sé í höndum stjórnmálamanna en framkvæmd og fagmennska í höndum sjálfstæðra stofnana og fagaðila.

Efasemdir mínar og margra annarra sem töluðu í 1. umr. fylgdu málinu inn í utanríkismálanefnd þar sem málið hefur því miður síst breyst til batnaðar heldur þvert á móti, eins og hér hefur verið lýst. Það var rifið í flaustri út úr nefndinni án þess að farið væri sómasamlega yfir þær athugasemdir og umsagnir sem fram komu um málið með tilvísun í að um þær hefði verið fjallað á síðasta þingi. Það hafa orðið mannabreytingar í nefndinni og meira að segja núverandi hv. formaður utanríkismálanefndar var ekki í nefndinni á þeim tíma þegar fjallað var um málið. Í því ljósi eru náttúrlega furðuleg vinnubrögð að gengið sé með slíkum flumbrugangi til verks. Það má glöggt sjá á nefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar sem gagnrýnir harðlega hvernig staðið var að frumvarpinu, telur það vanbúið, óljóst og byggja að hluta til á misskilningi.

Í nefndaráliti minni hlutans segir, með leyfi forseta:

„Hvergi liggur fyrir greining á því hvaða vanda er ætlað að leysa með því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) og færa verkefni hennar inn í utanríkisráðuneytið. Þvert á móti liggur fyrir að ÞSSÍ hefur staðið sig með mikilli prýði og hlotið lof fyrir störf sín, m.a. frá þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC. Engin haldbær rök koma fram í frumvarpinu fyrir því að leggja stofnunina niður. Þvert á móti er í greinargerð tekið sérstaklega fram að stofnunin hafi „unnið svo gott starf á vettvangi að eftir því er tekið“ og sagt að ÞSSÍ hafi „margsannað sig í óháðum úttektum“. Í þessu ljósi er frumvarp utanríkisráðherra um að leggja stofnunina niður illskiljanlegt.“

Ég tek heils hugar undir þessa gagnrýni enda tel ég það afturför í ljósi góðra og eðlilegra stjórnsýsluhátta að stíga þetta skref því að það má með gildum rökum draga í efa að ráðuneytið sé í reynd fært um að taka að sér faglegan hluta þessa starfs, þ.e. að það hafi til að bera þann starfskúltúr sem þarf til að vinna að umræddum verkefnum með sama hætti og gert hefur verið innan Þróunarsamvinnustofnunar til þessa. Með því að leggja niður stofnun sem hefur byggt upp sérþekkingu og faglegan kúltúr í kringum þessi mikilvægu verkefni um áratugaskeið er í raun og veru vegið að rótum þróunarsamvinnu eins og raunar fagaðilar hafa vakið athygli á með athugasemdum sem full ástæða er til að taka alvarlega.

Síðan er athyglisvert að sjá hvað markmiðin með breytingunni eru almennt orðuð í frumvarpinu og hvað lítil innstæða er fyrir því sem þar er sagt. Fullyrt er að ekki sé um að ræða neina breytingu á stefnumarkmiðum eða verklagi í þróunarsamvinnu. Þrástagast er á hugtökum eins og skilvirkni, hagkvæmni, samhæfingu og samlegðaráhrifum og fjallað um að draga úr óhagræði og tvíverknaði í rekstri. Samt eru engin dæmi nefnd í greinargerð eða framsögu ráðherra um meintan tvíverknað eða óhagræði. Þá kemur líka fram í nefndaráliti minni hlutans, sé það skoðað, að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst nefndarmönnum ekki að fá slík dæmi fram á fundum nefndarinnar. Það verður heldur ekki séð að markmið frumvarpsins sé sparnaður því að í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins í fylgiskjali með frumvarpinu kemur skýrt fram að ekki sé gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi nokkurn sparnað í för með sér. Þarna er ranglega gefið til kynna að hægt sé að ná einhverju slíku markmiði fram með þessari breytingu.

Í nefndaráliti minni hlutans er vakin athygli á því að Þróunarsamvinnustofnun Íslands telst til fyrirmyndarstofnana ríkisins og Ríkisendurskoðun hefur til dæmis ítrekað afgreitt ársreikning stofnunarinnar athugasemdalaust.

Herra forseti. Ef ætlunin er ekki að breyta markmiðum, stefnu eða verklagi, eins og sagt er í frumvarpinu, og ef auk þess er enginn sparnaður, eins og sýnt hefur verið fram á í umsögnum umsagnaraðila, til hvers eru þá refirnir skornir? Það eina sem séð verður að þetta hafi í för með sér er ógagnsærri og óskilvirkari ráðstöfun fjármuna samfara augljósri hættu á pólitískri mengun í mikilvægum málaflokki. Ég segi hætta á pólitískri mengun og þá ég við það og vek athygli á því sem segir í greinargerð með frumvarpinu að ætlunin sé að styrkja tengsl milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Ef það ætti að verða raunin þá yrði um leið komin upp sú hætta að diplómatískar áherslur færu að blandast inn í þróunarsamvinnuna, þ.e. að framlagsríki færu að reka þróunarsamvinnu með eigin hagsmuni að leiðarljósi en ekki hagsmuni fátækra ríkja eingöngu eins og er raunar vakin athygli á í áliti minni hlutans. Það yrði með öðrum orðum opnað fyrir samkrull viðskiptahagsmuna við þróunarsamvinnu þar sem þróunarsamvinna væri rekin undir sama þaki og utanríkisviðskiptastefnan, svo dæmi sé tekið. Þetta er algjörlega á skjön við það sem gott getur talist, pólitísk mengun sem varast ber.

Herra forseti. Þetta mál er glapræði. Það verður æ ljósara eftir því sem málinu vindur fram. Engin fagleg rök, engin hagkvæmnisrök, ekki heldur pólitísk rök. Með öðrum orðum, málið er endileysa og markleysa.

Hér er verið að taka faglegt starf úr höndum sjálfstæðrar stofnunar og draga það inn í pólitíska kviku af hinum heita pólitíska barmi ráðherrans undir rassinn á ráðherranum, svo ég tali nú bara íslensku. Afleiðingin verður ógagnsæi við ákvarðanatöku og val verkefna og óskilvirkari ráðstöfun fjármuna. Það er skref sem gengur gegn faglegri uppbyggingu í stjórnsýslu okkar.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri, herra forseti. Ég tel að þeir sem hafa talað hér á undan mér hafi að verulegu leyti rakið sömu sjónarmið eða svipuð þeim sem nú hafa komið fram í ræðu minni.

Ég harma það enn og aftur að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki hafa átt hér sæti í þessari lotu umræðunnar og að við skulum öðru sinni þurfa að fara yfir málið að honum fjarstöddum, án þess að hann sé í eigin persónu til andsvara til að standa fyrir máli sínu. Eins og ég sagði í umræðunni áðan um fundarstjórn forseta þá er þetta eiginlega valdníðsla. Það er verið að leggja niður stofnun sem er vel rekin. Hún er skilgreind sem fyrirmyndarstofnun. Það er lokið á hana lofsorði, meira að segja í frumvarpinu sjálfu. Þessa stofnun á að leggja niður án þess að af því geti orðið nokkur ávinningur, að því er séð verður, hvorki hagrænn, faglegur né pólitískur. Það er geðþóttahentistefna hjá ráðherranum, hugsanlega einhver meinbægni, að ná þessari stofnun inn í ráðuneytið og það á að gerast án þess að eðlileg umræða eigi sér stað um það í þinginu að honum viðstöddum. Maður hlýtur auðvitað að harma þá málsmeðferð og átelja hana harðlega.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Málið er eins og ég sagði áðan endileysa og markleysa.