145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já. Hér er það staðfest af einum þingmanni sem verið hefur nefndarformaður, að hún kannast ekki við svona vinnubrögð.

Ég get tekið dæmi frá síðasta kjörtímabili. Ég var formaður atvinnuveganefndar um tíma og vorum við þar með mörg mál, eins og til dæmis breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi, veiðileyfagjöldum og rammaáætlun. Ég leyfi mér að fullyrða, virðulegi forseti, að allar óskir minni hlutans um gestakomur voru uppfylltar. Þrátt fyrir að menn væru komnir í tímaþröng með mál var það samt sem áður gert. Ég verð að ítreka það enn einu sinni að ég hef aldrei kynnst því í þeim nefndum sem ég hef setið í að unnið væri eins og hér er gert. Það er engin afsökun fyrir því að málið komi nú í annað skipti til þings.

Hér hefur komið fram að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir var í fyrsta skipti að taka að sér nefndarformennsku í utanríkismálanefnd og tveir aðrir nýir þingmenn væru þar, þannig að þriðjungur nefndarinnar er nýr, sem gerir það að verkum að menn vilja eðlilega ræða málin betur.

Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, kom inn, ef ég man rétt, sem varamaður þegar málið var rifið út á þeim fundi. Hann heiðrar okkur með nærveru sinni í þingsal við þessa umræðu, en ég efast um að hann hafi fengið allar þær upplýsingar sem fram koma í umsögnum. Að sjálfsögðu geta menn lesið þær og allt það, en ég tek undir það sem hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir sagði áðan, að þetta er valdníðsla. Ég leyfi mér að fullyrða að meiri hluti nefndarinnar fékk þá skipun frá stjórnarmeirihlutanum að ljúka málinu sem allra fyrst (Forseti hringir.) og taka það úr nefnd og koma því í þingsal. Þetta er eina forgangsmál ráðherrans. (Forseti hringir.) Það er mál nr. 91, það er ekki nr. 2, 3, 4 eða 5, og það liggur svo mikið á því. Inn í þetta blandast líka það sem hv. þingmaður nefndi (Forseti hringir.) áðan, sem ég kalla meinbægni ráðherrans gagnvart þessari stofnun, (Forseti hringir.) að ná starfseminni og fjármagninu sem henni fylgir inn í ráðuneytið.